Sögðu frá veikindum Stefáns Karls eftir að kjaftasögur um andlát hans fóru að berast

Hjónin Stefán Karl Stefánsson og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir ákváðu að greina snemma frá veikindum Stefáns vegna þess að kjaftasögur um andlát hans voru farnar að berast. Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Stefán sagði í Bítinu að fljótlega eftir að hann var fluttur inn á Landspítala hafi sögusagnirnar farið af stað. „[Það] fóru að berast allskyns kjaftasögur um andlát mitt og svo framvegis,“ sagði hann í Bítinu.

Jafnvel vissi fólk ekkert hvað var að en vissi að þetta var eitthvað alvarlegt. Greinilega hafði þetta eitthvað spurst út og við bara tókum ákvörðun að segja strax og rétt frá í upphafi og vorum ekkert að fela þetta.

Stefán fékk mikil viðbrögð, bæði frá Íslendingum og aðdáendum í útlöndum. „Það varð þessi holskefla. Fólk kom á móti okkur og það voru ekki mistök að gera þetta,“ segir hann og bætir við að bréfin og skilaboðin frá fólki hafi verið yfir átta þúsund.

„Hvert læk og komment og annað sem maður fær frá fólki í þessum aðstæðum er bara manns sáluhjálp. Þess vegna segi ég að það er svo mikilvægt að ef það er einhver veikur í þínu nánasta umhverfi eða einhver sem þú hefur heyrt af eða veist af, þá bara réttið þið út höndina. Það þarf ekkert að segja rétta hlutinn. Það er nóg að bjóða góðan daginn.“

Hlustaðu á viðtalið við Stefán Karl hér fyrir neðan

Auglýsing

læk

Instagram