Tónlistarkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir, sem á fimmtudaginn vann Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir popplag ársins, vill fá afsökunarbeiðni frá útvarpsmanninum Frosta Logasyni.
Þetta kemur fram í svari hennar til Frosta en hún segir hann hafa niðurlægt hana og aðrar konur í beinni útsendingu í Harmageddun á X-inu í gær og að hann hafi sagt að hún ætti verðlaunin ekki skilið. Svarið hefur yfirskriftina „Frá popplagahöfundi ársins til útvarpskarlrembu, árið 2017.“
„Það er grátbroslegt að á fimmtudegi vinni ég Íslensku Tónlistarverðlaunin fyrir popplag ársins og í ræðu minni tileinki ég verðlaunin konum og stelpum í tónlist því að þær fái ekki plássið og heiðurinn sem þær eiga skilið og það sé mér mikið kappsmál að hvetja ungar stelpur til að þora- en daginn eftir sé ég niðurlægð af karli í útvarpi sem ákveður að þetta sé bara ekki rétt,“ skrifar Hildur.
Hún segir að í gær hafi Frosti ákveðið að undirstrika mikilvægi þess sem hún sagði í ræðunni.
„Á föstudagsmorgni ákveður Frosti Logason í Harmageddon á X977 að gjörsamlega undirstrika mikilvægi þess sem ég sagði í ræðunni með því að láta frá sér ótrúlega niðrandi orðræðu þar sem að hann segir að dómnefnd hafi í PC-væðingu sinni gefið mér þessi verðlaun í meðaumkun fyrir að vera kona, að ég eigi þetta ekki skilið út frá spilunartölum, rakkar niður laga- og textasmíðina og segir svo að eina góða sé pródúseringin og að ég hafi örugglega fengið strák til að hjálpa mér við hana. Hann fer svo yfir hvernig honum finnst annað lag, sem er samið, unnið og flutt af karlmönnum hafi frekar átt þetta skilið,“ skrifar Hildur einnig.
Hún segir að á þessum tveimur mínútum hafi Frost náð að ramma inn og sýna öllum sem vildu hlusta frábært dæmi um hvað sé að viðhorfi marga, hvað sé að tónlistarbransanum og hvaða hindranir og viðhorf stúlkur í tónlist þurfi að takast á við daglega.
„Og þegar ég segi daglega er ég ekki að ýkja, tónlistarvinkonur mínar geta allar deilt svipuðum sögum í tugatali. Svo heldur Frosti áfram og gerir lítið úr reynsluheimi allra kvenna í tónlist, sem hann á einhvern undraverðan hátt virðist vita allt betur um, verandi miðaldra karlmaður. Tekur hann sem dæmi að fyrst að Björk sé frægast íslenski tónlistarmaðurinn séu konur greinilega ekki með neinar hindranir,“ segir Hildur.
Í lokin segist hún vilja afsökunarbeiðni frá Frosta.
„Frosti Logason, mér þætti það eina rétta í stöðunni að þú sendir mér afsökunarbeiðni fyrir þetta niðrandi tal um mig og aðrar tónlistarkonur á opinberum vettvangi, ég vona að þú getir séð hvað þú gerðir rangt og lært vel af þessu,“ segir Hildur.
Hildur deildi svarinu til Frosta á Facebook og á Twitter og hafa þegar margir tjáð sig um málið við færsluna. Rúnar Eff, einn þeirra sem komst áfram í fyrri undankeppni Söngvakeppninnar 2017 fyrir viku, þakkar Hildi fyrir að taka slaginn og svara fyrir sig og allar aðrar konur.