Auglýsing

Spólararnir settu Vesturbæinn á hliðina: „Er ekki hægt að setja naglateppi út á Granda?“

„Er spyrnukeppni ársins í kvöld? Er ekki hægt að setja naglateppi út á Granda?“

Svona hljómuðu skilaboð frá langþreyttum íbúa í Vesturbænum í Facebook-hópnum Vesturbærinn í gærkvöldi. Hávaðinn í spólurunum sem mæta á tryllitækjunum sínum út á Granda hefur sjaldan verið meiri en í gærkvöldi og skilaboðum hreinlega ringdi inn í hópinn.

Um 40 bílar spóluðu um Vesturbæinn í gær og fimm ökumenn voru kærðir. Þeir mega þó ekki búast við hörðum viðurlögum þar sem sektirnar eru á bilinu fimm til tíu þúsund krónur — 3.750 krónur ef greitt er innan 30 daga.

Ýmsar hugmyndir voru viðraðar, allt frá undirskriftalistum til gaddagirðinga. Einn sem var greinilega búinn að fá nóg beindi orðum sínum til borgarfulltrúans Kjartans Magnússonar spurði hvað Reykjavíkurborg ætli að gera í þessum djöfulgangi „sem dverghnakkar á Impresum og annar óþjóðalýður stendur fyrir á fögrum sumarnóttum vestur í bæ??“

Þessa stundina eru óhljóðin, ískrið og spólið að spilla næturfriði alls Vesturbæjarins. Þetta er ólíðandi en eins og þú veist er lögreglan ekki í stakk búin til að taka á þessu. Eiga vesturbæingar að taka málin í sínar hendur? Þett er algerlega óboðlegt.

Guðbrandur Sigurðsson, varðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segist í samtali við RÚV hafa fullan skilning á þreytu íbúa og óánægju með ástandið. „Það hefur verið viðvarandi um nokkurt skeið en þó mismikið,“ segir hann á RÚV.

„Stundum hefur þessu lægt en svo virðist þetta fara í gang aftur núna og við bregðumst við kvörtunum þegar það á við og komum á staðinn en þetta eru hópar ökumanna sem virðast fylgjast vel með og mjög oft þegar lögreglan kemur á staðinn þá er annað hvort allt með kyrrð og sóma eða allir farnir.“

Guðbrandur segir í frétt RÚV að fundað hafi verið með Faxaflóahöfnum, Reykjavíkurborg og lóðareigendum um hvað sé til ráða. Hann bendir á að hraðahindranir hafi verið settar upp við Fiskislóð og Ánanaust og að hugmyndir hafi komið upp um að loka bílastæðum á kvöldin.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing