Stefán Jón Hafstein, stjórnarformaður Ríkisútvarpsins, segir að Ísrael eigi ekkert erindi í Eurovision á meðan stríðsrekstur þess gegn almenningi í Gasa heldur áfram. Hann skrifar aðsendan pistil á Vísi þar sem hann kallar eftir tafarlausri brottvísun Ísraels úr keppninni – og segir að stjórn Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, sýni „óafsakanlegt refsileysi“ með því að gera ekkert.
Fundur norrænna útvarpsstjóra í Reykjavík
Útvarpsstjórar Norðurlanda hittast í Reykjavík á næstu dögum til að ræða málið, en atkvæðagreiðsla um áframhaldandi þátttöku Ísraels fer fram í nóvember. Fulltrúi EBU verður viðstaddur fundinn.
Stefán skrifar greinina í eigin nafni, ekki fyrir hönd stjórnar RÚV, en hann segir að norrænu þjóðirnar verði að setja skýr mörk.
„Ríkisstjórn Ísraels fremur þjóðarmorð“
Í pistlinum segir Stefán að Sameinuðu þjóðirnar hafi þegar komist að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórn Benjamíns Netanjahú fremji þjóðarmorð á Gasa.
„Öllum hefur verið ljóst lengi að ríkisstjórn Ísraels margbrýtur alþjóðalög, fremur glæpi gegn mannkyni, beitir hungri gegn almenningi og skipuleggur fjöldamorð,“ skrifar hann og bendir á að Læknar án landamæra hafi notað orðið „slátrun“ um árásirnar.
Alþjóðasamstaða gegn Ísrael
Hann segir að yfir 200 alþjóðleg samtök hafi fordæmt aðgerðir Ísraels, þar á meðal Amnesty International, Human Rights Watch og Rauði krossinn. Á Íslandi hafi um 200 félög sameinast undir slagorðinu „Þjóð gegn þjóðarmorði“ og krafist viðskiptabanns við Ísrael.
Að sögn Stefáns hafi einnig samtök Eurovision-aðdáenda á Norðurlöndum lýst yfir andstöðu við þátttöku Ísraels.
„EBU sek um tvöfalt siðgæði“
Stefán bendir á að EBU hafi áður vikið Rússlandi úr keppni eftir innrásina í Úkraínu. Með því að láta Ísrael halda áfram að keppa sýni sambandið tvískinnung og pólitíska hræsni.
„Netanjahú og Pútín eru samsekir, báðir eftirlýstir stríðsglæpamenn,“ segir hann og bætir við að það sé „þvæla“ að réttlæta þátttöku Ísraels en ekki Rússlands.
Eurovision sem áróðursmaskína
Stefán segir að íslenskir fjölmiðlar og almenningur verði að sjá í gegnum áróðurinn sem Ísrael standi fyrir með þátttöku sinni í keppninni.
„Það er ekkert ópólitískt við að halda gleðileika með fulltrúum ríkis sem stundar fjöldamorð og notar söngakeppni til að kaupa sér lögmæti,“ skrifar hann og sakar framkvæmdastjórn Eurovision um að hafa falsað hljóðútsendingar til að kæfa mótmæli í salnum gegn Ísrael.
Brot á meginreglum EBU
Stefán segir að stjórnvöld í Ísrael hafi brotið allar grundvallarreglur EBU með því að banna fjölmiðlum aðgang að Gasa og ritstýra fréttaflutningi.
„Þetta eitt og sér er næg ástæða til að víkja Ísrael strax úr EBU. Þegar bætast við skipulögð morð og aftökur á fréttamönnum er refsileysi EBU yfirgengilegt,“ segir hann.
„Slut med at hygga sig med Netanyahu“
Í lokin hvetur Stefán norrænar þjóðir til að segja hingað og ekki lengra. Hann vitnar í ræðu forseta Finnlands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og skrifar:
„Kære nordiske kolleger. Nu er det slut med at hygga sig med Benjamin Netanyahu.“