Styrktartónleikar í dag: Býður upp fágætar rokkmyndir

Fjölskylduvænir rokktónleikar til styrktar Frosta Jay Freeman fara fram í Háskólabíói klukkan 17 í dag. Frosti er sjö ára og greindist í fyrra með mjög sjaldgæfan erfðasjúkdóm, Ataxia telangiectasia (AT). Sjúkdómur Frosta leggst meðal annars á taugakerfi og ónæmiskerfi og einkennist af vaxandi óstöðugleika hreyfingar sem leiðir til alvarlegrar færnisskerðingar. Ekki er til lækning við sjúkdómnum og því beinist meðferð fyrst og fremst að því að auka lífsgæði Frosta.

Á tónleikunum koma fram Bubbi Morthens, Daníel Ágúst, Dimma, Helgi Björns. Pollapönk, Lay Low, Pétur Ben, Smutty Smiff 302 Rockabilly house band og nokkrir meðlimir Kaleo.

Útvarpsmaðurinn Smutty Smiff skipuleggur tónleikana. Til að safna meiri peningum hafði hann samband við gamla félaga úr rokkabillísenunni, þeirra á meðal rokkljósmyndarana Mick Rock og Bob Gruen. Þetta kemur fram í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins.

Ég hafði sam­band við þá og það var eins hjá þeim. Um leið og ég hafði sagt þeim fyr­ir hvað þetta væri sendu þeir mér nokkr­ar mynd­ir, upp­runa­legu mynd­irn­ar sem verða áritaðar handa kaup­and­an­um. Mick er einn fræg­asti rok­k­ljós­mynd­ari allra tíma, og góður vin­ur minn, hálf­gerður stjúpi minn. Ég hef þekkt hann í um 30 ár eða svo. Hann hef­ur myndað Syd Bar­rett, Dav­id Bowie, Lou Reed, Iggy Pop, Qu­een, the Sex Pistols, The Ramo­nes, Blondie og fleiri og fleiri.

Myndir af Led Zeppelin, John Lennon, The Clash, David Bowie, Sex Pistols, Debbie Harry og fleiri tónlistarmönnum verða boðnar upp.

„Síðan á ég von á fleiri mynd­um,“ segir Smutty í Mogganum. „Ég mundi eft­ir ein­um vini mín­um sem vinn­ur á Vanity Fair og tók mynd­ina af Al Pac­ino þegar hann lék í Scarface. Hann ætl­ar að senda mér mynd sem hann tók í þeirri töku. Ekki sem er á kvik­myndaplakat­inu en í sömu seríu. Al Pac­ino í hvítu jakka­föt­un­um – það er ein upp­á­halds­mynd­in mín. Þetta gæti orðið að ein­hverj­um pen­ing­um sem von­andi leys­ir ein­hver vanda­mál Frosta.“

Auglýsing

læk

Instagram