Auglýsing

Svona var Orka auglýst árið 1999: „Þessi auglýsing hefði aldrei getað orðið svona á árinu 2017“

Markaðsmaðurinn Snorri Barón Jónsson rifjar upp söguna á bakvið auglýsingu fyrir Egils Orku frá árinu 1999 á Facebook-síðu sinni. Auglýsingin vakti mikla athygli á sínum tíma en Snorri segist vera spældur yfir því að svona auglýsing hefði ekki getað orðið til í dag. Horfðu á auglýsinguna hér fyrir neðan.

Aðalleikarinn í auglýsingunni, Friðrik Svanur Sigurðarson sem var á þessum tíma þekktur sem Friðrik 2000, setti auglýsinguna á Youtube í vikunni. Auglýsingin var fyrsta  sjónvarpsauglýsingin á ferli Snorra, sem hefur marga fjöruna sopið í auglýsingabransanum síðan og stýrir í dag auglýsingastofunni Maurar. „[Þetta] er í raun verkefnið sem markaði stefnuna sem mitt líf og starf tók,“ segir hann.

„Við Siggeir Magnús Hafsteinsson vorum búnir að starfa saman um hríð undir vörumerkinu Paranoia þegar þetta tækifæri hoppaði upp í fangið á okkur,“ rifjar Snorri upp.

„Þetta kom þannig til að Geiri var á djamminu, eins og gjarnan gat gerst, og spottaði þar hárprúðan mann, spólaði í hann, fékk hjá honum símanúmer og vilyrði fyrir því að hann væri reiðubúinn til að leika í auglýsingu ef gott tækifæri kæmi upp.“

Þarna er Snorri að tala um Friðrik 2000 sem var landsþekktur fyrir hárgreiðslu sína á þessum síma. „Í kjölfarið þá tókum við Geiri gott breinstorm sessjón og drógum að borðinu vinn minn og skólafélaga úr MH, leikstjórann Árna Þór Jónsson sem kveikti umsvifalaust á perunni og vildi djobbið, sem var léttir því hann var eini maðurinn sem við vildum fá með okkur í þetta.“

Snorri segir léttar pælingar hafa ratað á borð áður en hann kynnti hugmyndina fyrir Ölgerðinni. [Ég] hitti þar Arnar Ottesen og Harald Haraldsson sem reyndust vera til í tuskið og tilbúnir til að leggja í þá fjárfestingu sem til þurfti þó svo að algjör viðvaningur væri að selja þeim þetta,“ segir Snorri.

„Ég verð þeim ævinlega þakklátur fyrir að trúa og treysta að við gætum púllað þetta verkefni, því við vorum svo sannarlega ekki að ráðast á garðinn þar sem hann var lægstur. Þar með var grunnur lagður að brjáluðu ævintýri.“

Snorri segir að hægt sé að rifja upp nokkrar skemmtilegar staðreyndir sem tengjast verkefninu. „Til dæmis það að flestir þeirra sem tóku sér hlutverk skúrka í auglýsingunni voru keppendur í Herra Ísland keppninni víðfrægu,“ segir hann.

„Ómstríða röddinn sem hljómar yfir endaskiltinu er úr barka þáverandi uppvaskara á Kínahofinu, Nýbýlavegi. Aðalleikonan er síðan búin að vera talsvert í fréttunum að undanförnu fyrir eitthvað allt annað en leik í auglýsingu. Orðlengjum ekki meira um það.“

Og Snorri segir að hægt sé að segja endalausar sögur af þessu ævintýri. „En þegar ég horfi á þetta núna fyllist ég annarsvegar miklu stolti en verð einnig ponsu spældur yfir því hvað allt er orðið dauðhreinsað og siðlegt í dag,“ segir hann.

„Auglýsingar voru gjarnan miklu skemmtilegri í gamla daga en þær eru núna og þessi auglýsing hefði aldrei getað orðið svona á árinu 2017. Allt sem gerir hana einstaka hefði sennilega verið þurkað út til að móðga ekki þennan og svekkja ekki hinn. Árið 1999 var öldin svo sannarlega önnur… í orðsins fyllstu merkingu.“

Horfðu á auglýsinguna hér fyrir neðan

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing