Meirihluti Íslendinga finnst lífið vera sanngjarnt. Tæpum þriðjungi þjóðarinnar finnst lífið hins vegar ósanngjarnt. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar MMR sem var framkvæmd í maí.
Rúm 72% þátttakenda í könnuninni fannst lífið vera sanngjarnt en tæp 28% fannst það vera ósanngjarnt. Samtals tóku 79,2% þátttakenda í könnuninni afstöðu til spurningarinnar. Spurt var: „Finnst þér lífið vera sanngjarnt eða ósanngjarnt“ og svarmöguleikar voru: Lífið er sanngjarnt, lífið er ósanngjarnt, veit ekki/vil ekki svara.
Konur reyndust líklegri en karlar til að finnast lífið vera sanngjarnt en 74% kvenna sögðu lífið vera sanngjarnt samanborið við 71% karla. Með auknum aldri jókst hlutfall þeirra sem töldu lífið sanngjarnt.
Hlutfall þeirra sem töldu lífið sanngjarnt jókst einnig með auknum heimilistekjum. Af þeim sem höfðu heimilistekjur undir 400 þúsund á mánuði töldu 57% lífið vera sanngjarnt samanborið við 81% þeirra sem höfðu milljón eða meira í heimilistekjur.
Þau sem styðja Pírata og Samfylkinguna reyndust töluvert líklegri til að finnast lífið ósanngjarnt en stuðningsfólk annarra flokka. Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks reyndist líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að telja lífið vera sanngjarnt.