Taka upp Netflix-þátt í Reykjavík

Tökur á þáttaröðinni Sense8 fara nú fram í Reykjavík. Tökuliðið ásamt leikurum er nú í Þingholtunum en upptökurnar færast í Vesturbæinn eftir hádegi, samkvæmt heimildum Nútímans. Umfangið er mikið en íbúar í Þingholtunum vöknuðu við allavega sex flutningabíla og tvo kranabíla snemma í morgun.

Sense8 er hugarfóstur systkinanna Andy og Lönu Wachowski, sem eru meðal annars á bakvið Matrix-trílógíuna, V for Vendetta og Cloud Atlas. Þáttaröðin verður sýnd á Netflix og á meðal leikara eru Daryl Hannah, Alfonso Herrera og Naveen Andrews. Óvíst er hvaða leikarar fara með hlutverk í þáttunum sem eru teknir upp á Íslandi en tökur fara einnig fram í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Suður-Kóreu, Mexíkó og Keníu.

Sense8 er vísindaskáldsaga sem segir sögu átta manns frá ólíkum heimshornum. Öll eru þau skyggn og uppgvöta skyndilega að þau tengjast á yfirnáttúrulegan hátt. Hinn dularfulli og valdamikli Jónas reynir loks að leiða þau saman á meðan annar dularfullur maður, Mr. Whispers, reynir að ráða þau af dögum.

Auglýsing

læk

Instagram