„Það fór allt í bál og brand“ – Öryggisstjóri Laugardalshallar svarar gagnrýni

Eftir mikla gagnrýni og fjölda frásagna af öngþveiti í Laugardalshöll á Fermingarveislu aldarinnar hefur Jens Andri Fylkisson, yfirmaður öryggisgæslu á viðburðinum, nú svarað fyrir skipulagið í viðtali við Vísi. Þar segir hann að fimmtán mínútna pása í dagskránni hafi verið kveikjan að alvarlegum troðningi þegar um tíu þúsund manns reyndu að yfirgefa salinn í einu.

„Það myndast þessi mikli troðningur þegar einu atriðinu lauk. Þá var korters pása og tíu þúsund manns reyna að komast út á sama tíma. Svo gengur það ekki og fólk reynir að komast til baka. Þá myndast þrýstingur í báðar áttir,“ segir Jens í samtali við Vísi.

Auglýsing

Samkvæmt lögreglu voru þrír fluttir á slysadeild, og tilkynnt var um líkamsárás, fíkniefnamál og vopnalagabrot. Lögreglan hefur nú boðað tónleikahaldara til fundar eftir helgi til að fara yfir framkvæmd viðburðarins. Eins og fram hefur komið í fyrri umfjöllun Nútímans, lýstu margir gestir því að þeir hefðu haldið að þeir myndu bókstaflega ekki lifa kvöldið af.

„Ég hélt að ég myndi deyja“ – Skelfileg upplifun gesta í „Fermingarveislu aldarinnar“

 „Við vissum ekkert hvað snéri upp né niður“

Í nýrri umfjöllun RÚV um tónleikana sem birtist á vef þeirra í dag er viðtal við unga konu sem var á tónleikunum og lýsir þeim sem „ógeðslegri reynslu“. Hún segir að hún muni aldrei mæta aftur á viðburð á vegum FM95BLÖ.

„Ég sá allavega tvær manneskjur verða undir þessu flóði af fólki,“ segir hún. Hún lýsir því að hún hafi orðið vitni að fólki liggja á gólfinu – jafnvel meðvitundarlausu – og segir lögreglu hafa verið alltof seina á staðinn. „Við vissum ekkert hvað snéri upp né niður og þetta voru bara hættulegar aðstæður.“

Aðspurð um öryggisgæslu segir hún einfaldlega: „Hvaða gæsla segi ég nú bara.“ Hún gagnrýnir að bæði lögregla og gæsluliðar hafi ekki náð tökum á aðstæðum og segir að ábyrgðin liggi hjá þeim sem stóðu að viðburðinum: „Öll ábyrgðin liggur hjá þeim. Þeir eru að halda þetta. Það þarf að vera undirbúinn undir hvað sem er og passa að það sé pláss til að fólk nái andanum.“

Skipuleggjendur svara ekki fjölmiðlum – Myndbönd sýna troðning og slagsmál

Í frétt Nútímans sem birt var fyrr í dag lýstu fjölmargir tónleikagestir því að þeir hafi óttast um líf sitt í mannmergðinni. Myndskeið sem birtist með fréttinni sýndi óreiðu, troðning og slagsmál sem brutust út í ringulreiðinni þegar fólk reyndi að komast fram í anddyrið – eða aftur inn. Fjöldi mynda og frásagna hefur borist frá viðstöddu fólki á samfélagsmiðlum og kallað hefur verið eftir því að skipuleggjendur stígi fram með skýringar og afsökun.

Öryggisstjóri viðburðarins viðurkennir nú að „betra skipulag“ hefði getað komið í veg fyrir troðninginn, m.a. með fleiri útgöngum og þéttari dagskrá. Samkvæmt Jens voru um 9.500 til 10.000 gestir á svæðinu – innan heimilaðra marka – en „þegar allir ætla út á sama tíma, þá ræður anddyrið ekki við það.“

Lögreglan mun nú fara yfir allt skipulag viðburðarins með tónleikahöldurum. Nútíminn heldur áfram að fylgjast með þróun málsins.

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing