Einn er látinn og að minnsta kosti tólf eru alvarlega slasaðir eftir að rúta með 40 til 50 erlendum ferðamönnum innanborðs valt skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur í dag.
Rútan valt rétt eftir klukkan 11 en þjóðveginum hefur verið lokað við Kirkjubæjarklaustur og verður lokaður á meðan unnið er að björgun á vettvangi.
Hér er það sem við vitum um málið:
- Einn er látinn og a.m.k. tólf eru alvarlega slasaðir og hafa verið fluttir af vettvangi í þyrlu.
- Allar þrjár þyrlur Landhelgisgæslunnar taka þátt í aðgerðunum.
- Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar eru nýlentar við Landspítalann í Fossvogi með samtals tólf manns sem slösuðust.
- Þriðja þyrlan er á leiðinni á vettvang.
- Blóðbankinn óskar eftir blóðgjöfum í O-flokki vegna slyssins. Opið er til klukkan 19 í kvöld.
- Landspítalinn hefur verið settur á gult viðbragðsstig vegna slyssins.
- Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi að um 300 manns hafi unnið að þessu stóra verkefni, þar af um 180 sem fóru á vettvang eða áleiðis þangað.