Ótrúleg saga Sigurðar Kjartans Hilmarssonar, sem byrjaði að gera skyr í eldhúsinu heima hjá sér fyrir rúmum áratug og seldi fyrirtækið á dögunum fyrir milljarða, hefur vakið mikla athygli. En hver er þessi Siggi? Nútíminn kynnti sér aðeins manninn sem varð milljarðarmæringur á því að selja íslenskt skyr í Bandaríkjunum.
Franski mjólkurrisinn Lactalis keypti á dögunum The Icelandic Milk and Skyr Corporation en fyrirtækið framleiðir Siggi’s Skyr. Samkvæmt Fréttablaðinu var söluverðið í kringum 300 milljónir dala en fyrirtækið var í 75 prósent hluta í eigu stofnandans Sigurðar Kjartans Hilmarssonar, ættingja hans og vina. Sjálfur átti Siggi fjórðung.
Siggi stofnaði fyrirtækið árið 2006 og það er greinilega satt það sem þau segja; að sígandi lukka sé best. Hægt og rólega hefur Siggi byggt fyrirtækið upp frá því að selja 50 til 60 dósir á laugardagsmorgnum á markaði í New York í að velta milljörðum — talið er að veltan í ár verði um 21 milljarður króna.
MS íhugaði að kæra
Íslendingar þekkja skyrið frá Mjólkursamsölunni best og þar á bæ leist mönnum ekki á blikina árið 2007: Rúmu ári eftir að Siggi stofnaði fyrirtækið. Í september árið 2007 birti Fréttablaðið frétt um að MS íhugaði að kæra Sigga en fyrirtækið taldi sig eiga einkaleyfi á vörumerkinu skyri.
Í fréttinni frá árinu 2007 kom fram að framkvæmdastjóri hjá MS hafði áhyggjur af því að Siggi’s Skyr myndi grafa undan markaðsstarfi MS, sem flutti út um þrjú þúsund tonn af skyri á viku til Bandaríkjanna og seldi í verslunum Whole Foods.
„Einkaleyfið á því að nota vörumerkið skyr er fengið frá alþjóðlegri stofnun sem er staðsett í Sviss og heitir World Intellectual Property Organization, eða WIPO. Mjólkursamsalan hefur sett lögmenn sína í málið til að kanna hvaða rétt fyrirtækið hefur,“ var haft eftir framkvæmdastjóranum.
Sjálfur var Siggi pollrólegur yfir þessu og í viðtali við Morgunblaðið í nóvember árið 2007 benti hann á að skyr sé nafnorð í hvorugkyni, sem hafi lengi verið til í íslensku og sé að finna í Websters-orðabókinni ásamt íslenskum og erlendum fræðibókum um mjólkurafurðir. Hann hafði fengið þær upplýsingar frá lögmönnum að einkaleyfi á orðinu skyr stæðist því ekki og að það sé svipað og ef einhver myndi reyna að fá einkaleyfi á orðinu jógúrt.
Ótrúleg saga
Það er bókstaflega allt gott við sögu Siggi’s Skyr. Siggi er ekki mjólkurfræðingur heldur hagfræðingur og vann við stjórnendaráðgjöf hjá Deloitte í Wall Street — eitthvað sem hann fann sig ekki í.
Honum fannst bandaríska jógúrtið of sætt og ákvað því að prófa að búa til skyr. Auðvitað hringdi hann í mömmu sína til að spyrja hvernig hann færi að því og auðvitað hafði hún ekki hugmynd um það — ekki frekar en flestir. „Mamma sagðist ekki kunna að búa til skyr en sendi mér þrjár til fjórar greinar sem hún fann á Þjóðarbókhlöðunni,“ sagði Siggi í viðtali í Morgunblaðinu fyrir áratug.
Ég las þær upp til agna og byrjaði svo að prófa mig áfram.
Í sama viðtali sagði hann að það hafi ekki verið stórt skref fyrir sig að segja skilið við fjármálahverfið. „Ég var í fullri vinnu hjá Deloitte en það átti illa við mig að starfa hjá stórfyrirtæki. Ég á alltof erfitt með að fara að fyrirmælum sem ég er ósammála.“
Fínn gaur sem spilar körfubolta
Nútíminn ræddi við fólk sem þekkir til Sigga og er honum lýst sem mjög fínum gaur. Þrátt fyrir mikla velgengni fylgir honum enginn íburður, skrifstofa hans í New York er hófstillt og eftir því sem Nútíminn kemst næst þá er stutt síðan hann hætti að búa með meðleigjendum sínum og fór að leigja með kærustunni.
Í viðtalinu í Morgunblaðinu frá 2007 er því lýst hvernig það reyndist samleigjendum Sigga nokkuð erfitt þegar hann hóf að gera fyrstu tilraunirnar við skyrgerð í eldhúsi íbúðarinnar. Eldhúsið hafi verið undirlagt, meðal annars af mjólkurafurðum, stórum potti, grisjum og grindum. Samleigjendurnir nutu reyndar líka góðs af tilraunastarfseminni og fengu reglulega að smakka skyrið.
Áhugi Sigga á heilbrigðum lífsstíl smitaðist í framleiðsluna á skyrinu, sem inniheldur ekki mikinn sykur. Siggi segist borða hollan mat og fyrir tveimur árum fjallaði Wall Street Journal um áhuga hans á körfubolta, sem hann spilar til að halda sér í formi.
Þegar Siggi kemur til Íslands gistir hann hjá foreldrum sínum í staðinn fyrir íburðarmiklum hótelherbergjum og til að gera hann ennþá dularfyllri þá hafa erlendir fjölmiðlar birt myndir af honum ásamt vini sínum, sænska Hollywood-leikaranum Alexander Skarsgård.
Saga Sigga er mögnuð. Hann hyggst halda áfram að stýra fyrirtækinu í New York en hann bjóst eflaust ekki við þessari miklu velgengni eftir að hann hætti í góðu starfi eftir dýrt nám og þurfti að fá lánaðan pening hjá móður sinni til að borga af námsláninu.
„Maður spurði sig ítarlega og í fullri alvöru hvað í andskotanum maður væri að gera,“ sagði Siggi í Morgunblaðinu fyrir áratug. Þá gekk vel en í dag er árangurinn orðinn stórkostlegur og hann er ekki á leiðinni heim, allavega ekki samkvæmt viðtali í Fréttablaðinu frá árinu 2014.
„Ég var á Íslandi um jólin og kem heim á sumrin til að fara í fjallgöngur og svoleiðis. En ég verð áfram hér í New York og á meðan reyni ég að borða eins mikið og ég get af þessu gamla íslenska fæði. Sem dæmi þá borðaði ég íslenskan þorsk í gærkvöldi sem ég keypti í Whole Foods. Ef ég fengi að ráða myndi ég borða fisk og kartöflur fimm sinnum í viku,“ sagði hann í Fréttablaðinu.