Mannanafnanefnd hefur birt nýja úrskurði á vef sínum. Nöfnin Aríel, Selina, Jónsi, Alisa, Ylfingur, Alíana hafa verið samþykkt en nöfnunum Mia og Zion var hafnað.
Um nafnið Aríel segir nefndin í úrskurði sínum að það hafi verið notað hér á landi sem eiginnafn karlmanns en þrátt fyrir það telur mannanafnanefnd að ekki verði á því byggt með vissu að nafnið geti ekki í íslensku máli einnig verið kvenmannsnafn.
„Nafnið tekur eignarfallsendingu (Aríelar). Það er einnig ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og ekki verður séð að það geti verið nafnbera til ama,“ segir í úrskurðinum.
„Þess má einnig geta að erlendis hefur nafnmyndin Aríel áunnið sér hefð sem kvenmannsnafn en í ljósi lítillar hefðar orðsins sem mannsnafns hér á landi telur nefndin að líta beri til þess sjónarmiðs, meðal annarra, við mat á nafninu. Í þessu ljósi verður ekki séð að eiginnafnið Aríel sem kvenmannsnafn brjóti í bág við íslenskt málkerfi. Mannanafnanefnd er því á grundvelli laga um mannanöfn ekki heimilt að hafna nafninu sem eiginnafni kvenmanns.“