Meðlimum Þjóðkirkjunnar fækkaði um rúmlega 6.200, úr 242.743 í 236.481 á árunum 2015 til 2017 samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Árið 2015 lagði starfshópur til að þjóðkirkjan myndi eyða 150 milljónum króna á fimm árum í að efla fræðslu-, kynningar- og fjölmiðlastarf sitt svo meðlimum myndi fjölga.
Hlutverk starfshópsins var að gera tillögur um hvern megi fjölga meðlimum í þjóðkirkjunni og lagði skýrslu sína fyrir Kirkjuþing í október árið 2015. „Boðun og predikun kirkjunnar nær ekki til almennings með nægilega áhrifamiklum hætti, þegar hún er orðin hornreka hjá RÚV og lítt áberandi á öðrum fjölmiðlum og á mannamótum öðrum en kirkjulegum athöfnum og messum,“ sagðu í skýrslu starfshópsins
Sjá einnig: 12 ára kyrrstaðan sem þjóðkirkjan er að tala um útskýrð
Í skýrslunni var vitnað í grein Rúnars Vilhjálmssonar prófessors þar sem kemur meðal annars fram að kirkjan hafi ekki fundið svör við nútímavæðingunni og sé nú „hjásett“ sem stofnun. „Eftir aldamót hafa svo skotið upp kollinum félög sem leggjast beinlínis gegn þjóðkirkjunni og kristinni trú,“ segir þar.
Slík félög hafa verið áberandi á seinni árum og rödd þeirra verið hávær, bæði í gegnum fjölmiðla sem og fótgönguliða sem fara um og hvetja til úrsagnar úr þjóðkirkjunni – og ganga með þar til gerð eyðublöð á sér – á sama tíma og hvatt er til skráningar í þeirra eigin félög.
Tillögur starfshópsins áttu meðal annars að draga úr fækkun sóknarbarna og stuðla að nýliðun innan þjóðkirkjunnar.