Karlmaður var fluttur á bráðamóttöku Landspítalans síðdegis eftir stunguárás í Fógetagarði við Aðalstræti í miðborg Reykjavíkur. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu réðust þrír menn að honum og stungu hann í aftanvert læri.
Maðurinn hlaut ekki lífshættuleg meiðsl.
Lögreglan leitar enn að árásarmönnunum en telur sig vita hverjir þeir eru. Að sögn veitingamanns sem fréttastofa ræddi við, fóru lögreglumenn um nærliggjandi veitingastaði við leitina að gerendum, án árangurs.
Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð til aðstoðar við aðgerðirnar.