Þrír farþegar sem lentu í rútuslysinu í Eldhrauni í gær eru enn í lífshættu en í heildina liggja tíu slasaðir á Landspítalanum. Rúv.is greinir frá þessu.
Í frétt Rúv kemur fram að af þeim tólf sem lagðir voru inn á spítalann í gær, þurftu fimm á gjörgæslumeðferð að halda. Tveir voru útskrifaðir skömmu eftir komu á sjúkrahúsið og þá verði tveir útskrifaðir í dag.
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, sem stýrir rannsókninni á slysinu, segir í samtali við fréttastofu Rúv að rannsóknin beinist meðal annars að því að fá úr því skorið á hve miklum hraða rútunni var ekið en mikil hálka var á veginum.