Þrír verkfræðingar glæddu Hafnartorg Sigmundar lífi, bökuðu piparkökuhús með þyrlupalli

Þremur ungum verkfræðingum hjá fyrirtækinu Nox fannst hugmynd Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og þingmanns Framsóknarflokksins, að útliti Hafnartorgs ekki fá næga athygli.

Þegar kom að piparkökuhúsakeppni fyrirtækisins fyrir jólin ákváðu þeir að nota hugmynd hans í von um sigur.

Sigmundi leist ekki vel á teikningu PK arkitekta vegna hússins sem átti að byggja við Hafnartorgi við Lækjargötu og fór fram á að henni yrði hafnað.

Hann sagði að það yrði „álitið mesta skipulagsslys í miðbæ Reykjavíkur í seinni tíð og jafnvel alla tíð.“ Skilaði hann eigin tillögu að nýbyggingu í 19. aldar stíl en henni var hafnað.

Sjá einnig: Svona vildi Sigmundur að Hafnartorg myndi líta út: „Þetta gengur of langt“

Bragi Árnason, Guðjón Teitur Sigurðarson og Tryggvi Örn Gunnarsson eru allir rafmagnsverkfræðingar hjá tækni- og hugvitsfyrirtækinu Nox sem hannar og framleiðir tækni til svefnrannsókna ásamt því að vinna að svefnrannsóknum.

Tryggvi segir í samtali við Nútímann að þeim hafi tekist að glæða hugmynd Sigmundar lífi með þessum hætti og muni hún lifa yfir jólin, eða þangað til að húsið verður borðað.

Vinnufélagarnir lögðu um tuttugu klukkustundir í verkið. Tryggvi segir að fyrst hafi þeir virt teikningu Sigmundar fyrir sér og teiknað húsið á blað „upp á gamla mátann“.

Því næst var húsið teiknað upp í forritinu AutoCad svo öll hlutföll væru á hreinu og burðarþolið líka. „Svo byrjuðum við að baka,“ segir Tryggvi. Verkið gekk að mestu leyti vel. Húsið var stundum við það detta í sundur en allt fór þó vel að lokum.

15536733_10210480336671975_1215037658_o

Á húsi Braga, Guðjóns og Tryggva er þyrlupallur en blaðamaður veit ekki til þess að Sigmundur hafi sjálfur reiknað með honum á teikningu sinni.

Tryggvi útskýrir að á teikningunni sjáist ekki nógu vel hvað er á þakinu en þeim hafi fundist liggja beint við að þar væri þyrlupallur. „Hann á nóg af peningum, það er fínt að vera með þyrlu,“ segir hann.

Þetta er í fyrsta skipti sem keppnin er haldin innan fyrirtæksins og stefna félagarnir ótrauðir á sigur. Ekki hefur verið ákveðið hvort Sigmundur fær húsið afhent að keppni lokinni.

Auglýsing

læk

Instagram