Sérstök Reykjavíkurútgáfa af tímaritinu ELSKA er á leiðinni í endurprentun í sjötta skipti. Tímaritið kemur út annan hvern mánuð og myndirnar í hverju tölublaði eru teknar af fáklæddum körlum í mismunandi borgum víðsvegar um heiminn. Reykjavíkurblaðið er það langvinsælasta hingað til. Þetta kemur fram á vefnum Gay Iceland.
Ritstjórinn og ljósmyndarinn Liam Campbell segist í samtali við Gay Iceland hafa spurt fólk af hverju það haldi að Reykjavíkublaðið seljist best. „Sumir hafa sagt að myndarlegustu strákarnir séu íslenskir,“ segir hann.
Ég held að þetta sé vegna þess að Ísland er svo heitur áfangastaður fyrir hinsegin ferðamenn. Við tókum þátt í ráðstefnunni RuPaul’s Drag Con í New York á dögunum og haugur af fólki kom, leit á borðið okkar sem var þakið tímaritum og valdi Reykjavíkurblaðið fyrst.
Ný og endurbætt útgáfa af Reykjavíkurblaði ELSKA kom út í gær og hægt er að panta eintak á vef tímaritsins.
Spurður af blaðamanni Gay Iceland hvort annað tölublað frá Íslandi sé væntanlegt segist Liam ekki vilja endurgera Reykjavíkurblaðið. „Nærtækast væri að gera Elska Akureyri. En ég er samt ekki viss um hvort við finnum 12 til 15 stráka þar sem eru tilbúnir að sitja fyrir.“