Titringur á 365 vegna völvu í Fréttablaðinu

Titrings gætir meðal starfsmanna 365 vegna völvu sem birtist í Lífinu, fylgiriti Fréttablaðsins í dag. Í völvunni er meðal annars dylgjað um persónlega hagi starfsmanna fyrirtækisins. Umsjónarmaður Lífsins veit ekki hver skrifar völvuna og viðurkennir að ýmislegt sem kom fram skjóti skökku við.

Í völvunni kemur meðal annars fram að Steindi jr., sem er með þátt á Stöð 2 um þessar mundir, þurfi að „gæta sín“ í einkalífinu, Auðunn Blöndal er sagður þreyttur og Þorbjörn Þórðarson er sagður breyta um lífsstíl á miðju ári.

Þá er Sveppi sagður á hálum ís með sjálfan sig og að „mikil bleyta og vosbúð“ sé í kringum hann. Loks er sagt að Logi Bergmann muni eiga í hjónabandserfiðleikum á árinu þar sem „funinn sé farinn að kulna hjá honum og Svanhildi“.

Heimildir Nútímans herma að starfsfólk 365 skilji hreinlega ekkert í völvunni eða hvernig hún komst í gegn.

Friðrika Hjördís Geirsdóttir, best þekkt sem Rikka, sér um Lífið. Hún segir að hún viti ekki sjálf hver skrifar völvuna en viðurkennir að það sem kemur fram sé úr takti við fylgiritið Lífið.

Þetta er aðsent efni og ekki gert innan 365. Þetta kemur frá okkar völvu úti í bæ og ég get ekki farið að krukka í eða breyta því sem kemur þar fram. Þá væri ég byrjuð að skrifa völvuna. Það ríkir mikil leynd um völvuna og ég veit ekki hver þetta er.

Rikka segir gott að þessi umræða komi upp þó hún gangi ekki svo langt að gagnrýna það sem kemur fram í völvunni. Hún segist hafa tvo kosti í stöðunni: Að birta völvuna óbreytta eða sleppa því að birta hana.

„Að sjálfsögðu ætti að vera meiri húmor í staðinn fyrir að tala fólk niður,“ segir hún og bætir við að hún telji að fæstir trúi því sem kemur fram í völvuspám.

„Þetta er yfirleitt gert til gamans og það er leiðinlegt þegar þetta er neikvætt. Það hefur ekki verið stefnan á Lífinu og skýtur vissulega skökku við. Ég persónulega er á því að það eigi að takmarka  neikvæða umfjöllnu um einstaklinga. Það var margt þarna sem kom mér á óvart en þetta er eitthvað sem við fáum sent og mér fannst ekki við hæfi að ég fari að krukka í eða breyta því sem kemur fram.“

Auglýsing

læk

Instagram