Tíu kettlingar og einn köttur hafa fengið heimili í gegnum Keeping Up With the Kattarshians

Tíu kettlingar og einn fullorðinn köttur hafa fengið heimili eftir að útsendingar frá Keeping Up With the Kattarshians hófust í lok febrúar. Mörg þúsund manns fylgjast með beinu útsendingunni og hefur starfsfólk Kattholts fundið fyrir því að fleiri hafa áhuga á að taka að sér kettlinga og ketti. Hér er hægt að fylgjast með krúttunum. 

Bríet, Ronja, Guðni og Stubbur fluttu fyrst inn í húsið. Bó og Svala fylgdu í kjölfarið og því næst var það einstæða móðirin Vanilla sem fékk að búa í húsinu með börnin sín fimm, Gretti, Nóa, Nóu, Trítil og Tópas. Þessir kettir hafa allir fengið heimili.

Systkinin Dimma, Sara Björk, Svarthöfði og Úlfur Úlfur fluttu inn í húsið í síðustu viku og við vonum að þeim verði tekið fagnandi þegar þau eru tilbúin að fara á framtíðarheimili.

Starfsfólk Kattholts hefur tekið eftir því að það er erfiðara fyrir kettlinga og ketti að eignast framtíðarheimili á sumrin. Við hvetjum þau sem hafa áhuga á að taka að sér mjúkan og skemmtilegan vin að hafa samband við Kattholt. Þá er einnig búið að koma fyrir svokölluðum Pay Pal-hnapp á síðu Kattholts þar sem hægt er að leggja þeim lið.

Auglýsing

læk

Instagram