Hjalti Magnússon kennari var í vikunni sektaður fyrir að leggja ólöglega í Vesturbænum áður en leikur KR og Selfoss í Borgunarbikarnum hófst. Það var samt ekki lögreglan sem sektaði Hjalta heldur fulltrúi fyrirtækis sem kallast Sektarinn ehf.
Lögreglan hefur ein umboð til að innheimta slíkar sektir ásamt sveitarfélögunum með sérstökum undanþágum. Sektarinn sagði við Hjalta að hann væri að bíða eftir umboði til að innheimta sektir.
Hjalti vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið þegar hann sá sektina, sem vísaði í 108. grein umferðarlaga sem fjallar meðal annars um slíkar sektir. Þar kemur reyndar einnig fram að lögreglan annist innheimtu.
„Ég lagði semsagt bílnum mínum fyrir utan völlinn á plani hjá blokk, svolítið upp á gangstétt,“ útskýrir Hjalti.
Svo sé ég einhvern gaur að vesenast í kringum bílinn minn og hélt að þetta væri einhver íbúi að pirra sig. Ég geng til hans og spyr hvort ég eigi ekki að færa bílinn. Hann svarar „Það er bara of seint. Ég er búinn að sekta þig!“
Sektarinn setti miða á bíl Hjalta og sagðist vera með umboð. „Ég segi nú, frá hverjum og hann svarar: Bara umboð.“
Ásdís, eiginkona Hjalta, er lögfræðingur og hefur annast samskipti við Sektarann. Hann hefur haldið kröfunni til streitu en hefur fryst hana að hans sögn þangað til að hann fær umboð til að sekta bíla fyrir að leggja ólöglega.
Inkasso ætlaði að annast innheimtur fyrir Sektarann. Þorvaldur Örn Kristmundsson, forstöðumaður samskipta og viðskiptaþróunar hjá Inkasso, segir á vef RÚV að það hefðu verið mistök að sinna innheimtu fyrir Sektarann. Engin innheimta hafi þó verið send út og málið sé í skoðun innanhúss.
RÚV hafði samband við númerið sem gefið er upp á sektarmiðunum. Konan sem svaraði sagði að hún og maðurinn hennar hefðu tekið upp á þessu til að afla sér fjár.
„Við héldum að við hefðum fengið leyfi frá ríkisskattstjóra en þeir breyttu því. Við vissum ekki að þetta væri ólöglegt. Við biðjum alla afsökunar á þessu. Þetta voru mistök og það mega allir henda miðanum,“ segir hún í samtali við RÚV.
Þau sektuðu 17 bíla áður en þau hættu þessari ólöglegu starfsemi.