today-is-a-good-day

Tónlistarmenn æfir yfir plötusölugjaldi í Hörpu

Tónlistarmenn eru æfir yfir nýju gjaldi sem Harpa rukkar þá fyrir að fá að selja plötur í húsinu. Nútíminn sagði frá gjaldinu í gær og þar sagði Edda H. Austmann Harðardóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi Hörpu, að almenn ánægja ríki með þetta nýja fyrirkomulag: „Samræmist þetta viðskiptaháttum í tónleikahúsum erlendis.“

Eftir að fréttin birtist hafa líflegar umræðir spunnist víða um netheima og eru Björgvin Halldórsson, Sigríður Beinteinsdóttir og Raghneiður Gröndal á meðal fjölmargra tónlistarmanna sem hafa gagnrýnt gjaldið í umræðum á Facebook.

Tónlistarmaðurinn Samúel Jón Samúelsson, stjórnarmaður í Félagi tónskálda og textahöfunda, segir að gjaldið ætti að vera innifalið í leigunni í Hörpu.

„Þetta væri sanngjarnt ef það væri starfsmaður á vegum Hörpu að selja plöturnar,“ segir hann. Harpa útvegar dúkað borð en hvorki posa né starfsmann. Aðstöðugjald miðast við stærð tónleika og er sem hér segir:

Eldborg 40.000 kr. án/vsk
Silfurberg 28.000 kr. án/vsk
Norðurljós 20.000 kr. án/vsk
Kaldalón 12.000 kr. án/vsk

Samúel undirstrikar að gjaldið væri sanngjarnt ef starfsmaður á vegum Hörpunnar myndi sjá um plötusöluna:

Það kostar alveg nóg að leigja sal. Þetta er ekki fyrir hvaða verkefni sem er. Ég sé ekki af hverju listamaðurinn má ekki bara setjast á sviðsbrúnina og selja plötur eftir tónleika. Það munar um þetta enda kostnaðarsamt að halda tónleika. Þetta er eitt af púslunum sem þarf til að láta þetta ganga upp og það er óþarfi að klípa af því líka.

Versl­un 12 Tóna í Hörpu lokaði í nóvember. Verslunin hafði einkaleyfi á að selja tónlist í Hörpu, þar með talið á tónleikum í húsinu. Hljómsveitir sem komu fram á tónleikum í Hörpu gátu því ekki selt plöturnar sínar nema í gegnum 12 tóna.

Í dag mega tónlistarmenn selja eigin tónlist á meðan á tónleikum þeirra stendur. Þeir þurfa þó að greiða Hörpu sérstakt gjald sem leggst ofan á leiguna fyrir salinn.

Auglýsing

læk

Instagram