Áfrýjunardómstóll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands staðfesti í gær fjögurra ára keppnisbann yfir þeim Birni Róberti Sigurðssyni og Steindóri Ingasyni. Þeir eru báðir landsliðsmenn í íshokkí og féllu á lyfaprófi. Þeir félagar höfðu áfrýjað dómnum því þeir voru að eigin sögn að undirbúa sig fyrir ferð á sólarströnd, ekki íshokkíleik. Vísir.is greinir frá þessu.
Fram kemur í frétt Vísis að þeir Björn og Steindór hafi tekið inn stera sem voru á bannlista. Þeir gáfu þá skýringu að þeir hafi tekið sterana til að stækka vöðva sína fyrir sólarlandaferð. Á það féllst dómurinn ekki og dæmdi þá í fjögurra ára bann.
Þeir Björn Róbert Sigurðsson og Steindór Ingason mega ekki koma nálægt íslensku íþróttalífi fyrr en 6. september 2021.