Úlfur Úlfur hvetur Þjóðhátíð til að hlusta: „Hættið að berjast á móti og berjist frekar með“

Rappsveitin Úlfur Úlfur hvetur þau sem standa að Þjóðhátíð í Eyjum til að hlusta á ákall samfélagsins um bættar aðstæður fyrir þolendur kynferðisbrota á hátíðinni. Þetta kemur fram á Facebook-síðu hljómsveitarinnar.

„Á þjóðhátíð hefur fólki verið nauðgað og mál þeirra meðhöndluð á vafasaman hátt,“ segir í færslunni.

Hagsmunaaðilar eru svo stoltir að þeir fara í vörn fremur en að hlusta og læra þegar þeir eru gagnrýndir og fyrir vikið batna aðstæður ekki fyrir þolendur. Þeim er enn nauðgað. Það er líka staðreynd.

Úlfur Úlfur bendir á að nauðgarar nauðgi en að aðrir skapi aðstöðu fyrir þá. „Til dæmis þegar lögreglustjóri þaggar niður í umræðu um brot á hátíð sem hafnar samstarfi við Stígamót,“ segir í færslunni.

Þar er vísað í að lögreglan í Vestmannaeyjum ætli ekki að upplýsa fjölmiðla um tilkynnt kynferðisbrot á Þjóðhátíð í Eyjum fyrr en eftir hátíðina. Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri segir þetta gert til að vernda brotaþola frá ytra álagi og auka líkur á góðri frásögn. Þá sagði formaður Þjóðhátíðarnefndar að samtökin Stígamót nærist á vandamálum í viðtali sem vakti mikla athygli árið 2011.

Sjá einnig: Margréti Maack nóg boðið og lét kaldhæðin ummæli falla, hlustaðu á umtalað brot úr þættinum

„Það er verið að verja orðspor hátíðarinnar og bæjarfélagsins af svo miklum mætti að áhrifin virka öfug og orðsporið verður að engu. Hættið að berjast á móti og berjist frekar með. Í alvöru. Þetta er pínlegt fyrir alla,“ segir í færslu Úlfs Úlfs. Hljómsveitin hvetur alla málsaðla til þess að hlusta á ákall samfélagsins um betrumbætur.

„Það er enginn að gagnrýna hátíðina til þess að skemma fyrir Vestmannaeyjum — við viljum bara sjá alla sem málið varðar snúa vörn í sókn. Verjum ekki það sem hefur verið illa gert í fortíðinni heldur reynum að nýta orkuna í að gera betur fyrir framtíðina.“

Á samfélagsmiðlum í dag hafa hljómsveitir verið hvattar til að hætta við að koma fram á hátíðinni en Úlfur Úlfur hyggst koma fram á Þjóðhátíð.

„Ég er spenntur því á Íslandi fá listamenn sjaldan eða aldrei tækifæri til þess að koma fram við sambærilegar aðstæður – í risavöxnu kerfi á risavöxnu sviði fyrir framan risavaxið mannhaf – sérstaklega ekki ef maður er stelpa. Sem betur fer erum við tveir gaurar,“ segir í færslunni.

„Það er gaman á Þjóðhátíð. Þessvegna mæta 15 eða 20 þúsund manns árlega í dalinn. Svona margir koma ekki saman nema von sé á góðu. Það er staðreynd.“

Hér má lesa færslu hljómsveitarinnar á Facebook

Auglýsing

læk

Instagram