Að minnsta kosti 90 manns taka nú þátt í leit að Ríkharði Péturssyni, tæplega fimmtugum manni sem ekkert hefur spurst til síðan á þriðjudag. Ríkharður fór frá heimili sínu á Selfossi síðdegis á þriðjudag.
Ríkharður, sem er meðalmaður á hæð og grannvaxinn, fór frá heimili sínu á Selfossi um klukkan 16 á þriðjudag. Hann var klæddur í svartar buxur, svarta úlpu og svarta húfu með gulri áletrun.
„Leit í dag snýst aðallega um að leita á Selfossi og nær umhverfi og reyna að skoða ána með sérhæfðum leitarmönnum og drónum. Við erum með um 90 manna sem eru virkir í leitinni í dag og yfir 120 manns í heildina síðustu daga,“ segir Gunnar Ingi Friðriksson stjórnandi svæðisstjórnar í samtali við Rúv.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Ríkharðs eftir kl. 16:00 síðastliðinn þriðjudag eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á Suðurlandi í síma 4442000, 112 eða á einkaskilaboðum á Facebook.