Una var bara 19 ára þegar hún veiktist alvarlega: „Það er bara glatað að fá krabbamein í heilann“

„Ekki að það sé neitt ljóðrænt við að fá krabbamein, það er bara glatað, en það afhjúpaði fyrir mér að það var svo margt annað að í hausnum á mér,“ segir Una Torfadóttir tónlistarkona, í samtali við RÚV, sem sigraðist á alvarlegum veikindum og sér nú lífið í nýju ljósi.

Una gaf út lagið Ekkert að fyrir helgi og von er á fyrstu plötu hennar í vor.

Fyrir tæplega tveimur árum gekk Una í gegnum erfið veikindi. Þá var móðir hennar, Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og gekk þá í garð afar erfitt tímabil hjá fjölskyldunni.

Veikindin uppgötvuðust eftir að Una fékk skyndilegt flogakast og kom þá í ljós að hún væri með illkynja heilaæxl í heila. Aðeins 19 ára gömul byrjaði hún því í erfiðri krabbameinsmeðferð. „Þetta ferli gekk alveg ótrúlega vel, ég var rosalega lánsöm. Það að veikjast neyddi mig til að setja lífið mitt í pásu og vinna í andlegu hliðinni. Það er eiginlega það eina sem maður hefur einhverja stjórn á þegar maður lendir í svona.“

Una hefur glímt við þunglyndi og ýmsa vanlíðan síðan hún var unglingur og segir hún að veikindin hafi ýtt henni út í að kljást við þessi vandamál. „Ég fékk svo mikla hjálp,“ segir hún. „Það að ég sé að gefa út tónlist núna er að miklu leyti afleiðing þess að ég hafi farið í markvissa sjálfsvinnu og unnið í fullkomnunaráráttu og höfnunarótta.“

Auglýsing

læk

Instagram