Uppsetning er hafin á skautasvelli Nova á Ingólfstorgi en svellið verður opnað föstudaginn 1. desember klukkan 19. Svellið er samstarfsverkefni, Nova, Reykjavíkurborgar og Samsung.
Í tilkynningu frá Nova kemur fram að sérstakt jólaþorp muni umlykja svellið þar sem skreytingar og tónlist skapa rétta jólaandann og geta gestir keypt sér mat, drykk og annað góðgæti. „Svellið var glæsilegt í fyrra með alls 40.000 ljósaperum,“ segir í tilkynningunni.
Í ár bætast 60.000 perur við og verður því skautað undir tveimur ljósaþökum með alls 100.000 ljósaperum og ljúf og jólaleg stemningin eftir því.
Ýmsar uppákomur verða á opnuninni og jafnvel einnig í síðar í desember. Í tilkynningunni kemur fram að undanfarin ár hafi fólk tekið upp á ýmsu á rómantísku svellinu. „Má í því samhengi nefna að menn hafa skellt sér niður á hnén og fengið svarið já frá ástinni fyrir vikið.“