Úrskurður staðfestir leynd yfir máli hættulegasta fanga landsins – sem kostar skattgreiðendur hundruði milljóna

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja Nútímanum um aðgang að gögnum sem varða umsókn Mohamads Thors Jóhannessonar – áður Kourani – um alþjóðlega vernd.

Þrátt fyrir að hann hafi síðar verið dæmdur í átta ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps og fjölda annarra brota, og kostað skattgreiðendur nú þegar hundruði milljóna vegna sértæks viðbúnaðar í fangelsi – er almenningi meinaður aðgangur að upplýsingum um hvernig ákvörðun um veitingu verndar var tekin. 
Hver ber ábyrgð?

Auglýsing

Þegar einstaklingur sem hefur fengið vernd af hendi íslenskra stjórnvalda brýtur svo gegn því samfélagi sem tók hann að sér á almenningur rétt á svörum. Rétt á upplýsingum. Rétt á því að vita hvort kerfið sem á að vernda okkur öll sé að virka.

Umdeild nafnabreyting eftir fangelsisdóm

Mohamad Kourani, sem fékk alþjóðlega vernd á Íslandi árið 2018, breytti síðar nafni sínu í Mohamad Thor Jóhannesson. Sú nafnabreyting átti sér stað eftir að hann var dæmdur í átta ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps, líkamsárásir, hótanir og fleiri brot. Hann er nú skráður undir nýju nafni í Þjóðskrá Íslands.

Þessi breyting hefur af mörgum verið talin tilraun til að hylma yfir fortíð sem ekki stenst dagsljósið. Tilraun til þess að falla inn í mannfjöldann að afplánun lokinni.

Útlendingastofnun: Allt eða ekkert

Nútíminn óskaði eftir aðgangi að öllum gögnum sem tengdust umsókn Kourani um alþjóðlega vernd. Beiðnin var studd rökum um almannahagsmuni, einkum í ljósi þess að viðkomandi hafi sýnt af sér alvarlega glæpi eftir að hafa fengið vernd.

Engu að síður svaraði Útlendingastofnun með algjörri synjun – öll gögn væru „viðkvæm“ og ekki væri hægt að veita aðgang að neinum hluta þeirra.

Útlendingastofnun byggði ákvörðun sína á 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, þar sem kveðið er á um að ekki skuli veita almenningi aðgang að gögnum sem varða einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga ef sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari. Samkvæmt sömu lögum – nánar tiltekið 3. mgr. 5. gr. – ber stjórnvöldum að reyna að veita aðgang að hluta skjala, ef unnt er að greina þau þannig að viðkvæmar upplýsingar falli brott.

Eins og segir orðrétt í umræddri lagagrein:


„Ef ákvæði 6.–10. gr. eiga aðeins við um hluta gagns skal veita aðgang að öðrum hlutum þess.“

Nútíminn telur að þegar einstaklingur sem hefur hlotið alþjóðlega vernd brýtur síðar alvarlega af sér, eigi almannahagsmunir að vega þyngra en sú algilda leynd sem vísað er til – og 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga sé einmitt sett til að skapa rými fyrir slíkt mat.

En samkvæmt skilningi stjórnvalda í þessu máli var ekkert unnt að greina frá neinu – allt of viðkvæmt, allt samofið. Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga á að meta hvort upplýsingar séu „þannig vaxnar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók undir þessi rök og staðfesti þann skilning að gögnin væru svo samofin viðkvæmum upplýsingum að útilokað væri að greina þau frá öðrum upplýsingum sem almenningur gæti átt rétt á aðgangi að.

Leynd hvílir yfir gögnum um alþjóðlega vernd Mohamad Kourani

Viðvera Kourani á Litla-Hrauni kallar á sértækan viðbúnað

Kourani afplánar nú dóm sinn á Litla-Hrauni þar sem viðvera hans hefur kallað á viðbúnað sem fangelsismálayfirvöld lýsa sem einsdæmi. Fangaverðir hafa þurft að vera í hnífavestum og með hjálma við störf sín þegar þeir eiga samskipti við hann – alla daga.

Þetta hefur í för með sér verulegan viðbótarkostnað fyrir ríkissjóð og vakið áleitnar spurningar um það kerfi sem leyfði honum að koma hingað og dvelja hér með alþjóðlegri vernd.

Dómsmálaráðherra lofaði aðgerðum – en ekkert hefur gerst

Í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um brot Kourani og ástandið á Litla-Hrauni lýsti dómsmálaráðherra því yfir að hún hygðist beita sér fyrir því að hægt yrði að afturkalla alþjóðlega vernd þeirra sem brjóta alvarlega af sér eftir að hafa fengið hana.

Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar hefur lítið sem ekkert heyrst frá ráðuneytinu síðan. Engar lagabreytingar hafa verið lagðar fram og ekkert fast í hendi er komið til að tryggja slíkar heimildir stjórnvalda.

Viðbúnaður á Litla Hrauni vegna Kourani á sér enga hliðstæðu: „Þeir þurfa að vera í hnífavestum með hjálma til að eiga við hann“

Hver ber ábyrgð?

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar gefur tilefni til djúprar íhugunar: Þegar blaðamenn óska eftir gögnum sem varpa ljósi á ákvarðanir stjórnvalda um að veita alþjóðlega vernd – í nafni almannaöryggis og trausts til kerfisins – og fá í staðinn staðlað, lagalegt nei sem þýðir í raun:

„Þetta kemur ykkur ekkert við.“

…þá stendur spurningin eftir:

Hver sér til þess að kerfið standi sjálft undir ábyrgð – þegar það kýs að verja sig í stað þess að svara?

Við hjá Nútímanum höfum frá upphafi krafist upplýsinga um ferlið sem varð til þess að Kourani var veitt vernd. Sú krafa var reist á réttmætu siðferðilegu og lýðræðislegu sjónarmiði: Almennir borgarar, sem greiða fyrir þjónustuna, eiga rétt á að vita hvernig og hvers vegna slík vernd er veitt.

En úrskurðurinn virðist staðfesta að ekkert af þessu skiptir máli. Þegar stjórnsýslan ákveður að loka, þá lokar hún alveg – í stað þess að veita upplýsingar um mál sem svo sannarlega kemur almenningi við, eins og í þessu tiltekna máli.

Í stuttu máli:

Úrskurðarnefndin staðfesti synjun Útlendingastofnunar um að veita aðgang að gögnum um umsókn Mohamads Thors Jóhannessonar (áður Kourani) um alþjóðlega vernd á þeirri forsendu að:Gögnin innihaldi upplýsingar um einkahagi einstaklings, sem njóti verndar samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga.Ekki sé hægt að veita aðgang að hluta gagnanna, þar sem upplýsingarnar séu svo samofnar viðkvæmum persónuupplýsingum að ekki sé unnt að aðskilja þær.Engin sérstök rök væru færð af hálfu Nútímans sem væru þess eðlis að þau vigtuðu þyngra en vernd einkalífs í þessu máli.Því væri ekki sanngjarnt né eðlilegt að veita almenningi aðgang að gögnunum, með hliðsjón af vernd einkalífs samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Opin stjórnsýsla…á pappír

Það eitt að einhver umsækjandi hafi fengið vernd er sjálfstætt viðfangsefni sem almenningur á rétt á að fá upplýsingar um – sérstaklega ef sá aðili hefur síðan hlotið langan fangelsisdóm fyrir ofbeldisverk. Þetta er ekki spurning um dóm yfir manneskjunni – heldur dóm yfir ferlinu. Ferlinu sem á að tryggja að kerfið virki. Ferlinu sem á að vera gagnsætt, réttlátt og traustvekjandi.

En þegar ekki er veittur aðgangur að neinu – ekki einu sinni rökstuðningi – þá er traustið ekki bara laskað – það er horfið.

Ritstjórn Nútímans

Byggt á úrskurði nr. 1261/2025, opinberum skjölum og fyrri umfjöllunum Nútímans.

Þú getur lesið úrskurðinn hér í heild sinni en hann hefur ekki verið birtur á vef Stjórnarráðs Íslands.
Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing