„Mér finnst þetta einstakur staður á listasviðinu. Við veitum mörgum verkefnum rými sem gætu sennilega ekki fundið neinn annan stað, verkefni sem koma fyrst fram hér.“
Þetta segir Diego Manatrizio sem sér um alla tónlistarviðburði í einu rýminu í gamalli skemmu í Skerjafirði. Íbúar þar í grennd hafa ítrekað kvartað í borgaryfirvöld vegna hávaða sem hefur borist frá tónleikahaldi í skemmunni. Borgin hefur nú bannað allt viðburðahald þar, en frá þessu greinir Vísir.
Listfélagið Klúbburinn sem gerði samning við borgina fyrir tveimur árum um að fá að leigja rýmið. Samningurinn var gerður undir verkefni borgarinnar Skapandi borg. Húsin sem um ræðir er staðsett á vinnusvæði við Skeljanes. Það var áður notað undir starfsemi Skeljungs. Talsmenn listafélagsins segja það hafa komið flatt upp á sig þegar borgin ákvað nýlega að taka fyrir viðburðahald þar. Síðasta eitt og hálfa árið hafa verið haldnir alls kyns tónleikar, rave og leiksýningar í húsunum.
„Það lá fyrir að þetta rými var úthlutað listamönnum til að æfa og setja upp listræna viðburði. Það var í samningnum,“ segir Urður Bergsdóttir, ein af þeim sem sér um Tóma rýmið svonefnda, eitt af þeim rýmum sem hópurinn heldur úti á svæðinu.
Vonast hópurinn til að borgin stígi inn í og veiti þeim nauðsynlegt fjármagn til að bæta húsið og gera það viðburðahæft. Þá mælir Urður:
„Við bara köllum á borgina: Hjálp, plís“