„Við höldum áfram á þessari braut“

Tónleikar Justin Timberlake í Kórnum í Kópavogi í gær voru virkilega velheppnaðir. Kórinn þótti henta mjög vel undir þessa 17 þúsund manna tónleika og Ísleifur B. Þórhallsson hjá Senu segir að loks­ins sé búið að finna hús sem get­ur hýst þenn­an fjölda.

En hvað með Egilshöllina, þar sem stórtónleikar Metallica fóru fram árið 2004?

„Það tókst eiginlega aldrei að láta hana virka nógu vel. Það var vesen með loftræstingu, hita og hljómurinn var ekki nógu góður,“ segir Ísleifur og bætir við að það sé margt við Kórinn sem henti einstaklega vel. Á samfélagsmiðlum hrósaði fólk m.a. loftræstingunni sem Ísleifur segir að sé ekkert minna en bylting fyrir tónleikahaldara. „Í fyrsta skipti er alvöruloftræsting. Það er meira að segja hitastjórn í gólfinu!“

Tónleikarnir í gær mörkuðu upphaf samstarfs Senu við stórfyrirtækið Live Nation sem er með listamenn á borð við Rihönnu, Madonnu og Kings of Leon á sínum snærum. Ísleifur segir að mörg tækifæri felist í samstarfinu. „Við höldum áfram á þessari braut,“ segir hann. „Við erum alltaf í sambandi við umboðsmennina. Nú förum við að ræða við menn en það tekur alltaf tíma. Það tekur svo fjári langan tíma að ganga frá samningum við svona stórstjörnur.“

Auglýsing

læk

Instagram