today-is-a-good-day

Vilhjálmur Bjarnason reyndi að hylma yfir uppákomu Ásmundar Einars

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, reyndi að hylma yfir það sem átti sér stað í flugi Wow Air til Washington á dögunum þegar þingmaðurinn Ásmundur Einar Daðason ældi yfir farþega og innréttingar vélarinnar. Þetta kemur fram á vef DV.

Sjá einnig: Ölvaður Ásmundur ældi út um allt í flugi Wow Air

Ásmundur var þá búinn að viðurkenna í frétt DV að hafa „ælt yfir allt“ en hafnaði að hafa verið undir áhrifum áfengis. Nútíminn greindi í kjölfarið á því að hann hafi verið drukkinn.

Síðan þá hafa farþegar í vélinni og flugfreyja stigið fram og fullyrt að Ásmundur hafi verið mjög ölvaður. Í frétt á Stundinni kemur meðal annars fram að farþegar í vélinni hafi þurft að skipta um föt eftir að Ásmundur ældi yfir þá.

DV greinir frá því að eftir að fyrsta frétt um málið var birt á vef blaðsins hafi Vilhjálmur Bjarnason haft samband. Hann sagðist hafa setið nálægt Ásmundi, sem hafi „alls ekki“ verið ölvaður og kastað upp um borð. „Hann hélt því í rauninni fram að ekkert hefði gerst um borð,“ segir í frétt DV.

Ásmundur var á þessum tímapunkti búinn að viðurkenna að hafa ælt í fluginu.

Ásmundur og Vilhjálmur voru í ferð utanríkismálanefndar Alþingis til Washington. Nefndin átti fundi með fulltrúum utanríkismálanefndar fulltrúadeildar bandaríska þingsins, utanríkisráðuneyti, varnarmálaráðuneyti, viðskiptafulltrúa, Alþjóðabankanum og hugveitunni Atlantshafsráðinu.

Með í för voru einnig Birgir Ármannsson formaður, Elín Hirst, Óttarr Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Birgitta Jónsdóttir.

 

Auglýsing

læk

Instagram