Vöruskiptahalli við útlönd jókst um 60% á árinu 2017 en hallinn nam um 172 milljörðum króna. Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur hjá Arion banka og verðandi hagfræðingur Viðskiptaráðs setti hallann í samhengi og sagði í færslu á Twitter að hann næmi u.þ.b. einum Costco-fíl á hvern Íslending. Konráð segir þróunina jákvæða.
Vöruskiptahallinn árið 2017 nam 344 þúsund Costco fílum, eða ca. einum á hvert mannsbarn.
?????
— Konráð S. Guðjónsson (@konradgudjons) January 9, 2018
Konráð segir í samtali við Nútímann að þróunin sé jávæð. „Þessi þróun er jákvæð því hún endurspeglar meiri fjárfestingu, t.d. í íbúðum og að flestir landsmenn hafa meira á milli handanna,“ segir Konráð.
Hann segir hallann í fyrra hafa numið um 217 þúsund Costco fílum svo það er ljóst að aukningin er talsverð. „Hallinn er kominn á svipaðar slóðir og fyrir hrun en ævintýraleg fjölgun ferðamanna leiðir til þess að viðskiptajöfnuður er enn jákvæður svo landsmenn eru almennt ekki að eyða um efni fram líkt og þá.“
Sjá einnig: Costco gaf Húsdýragarðinum risastóra fílinn: „Ekki hægt að finna betri stað fyrir fíl á Íslandi“
Vöruskiptajöfnuður mælir mismuninn á vöruútflutningi og vöruinnflutningi og sé hann neikvæður þýðir það að Íslendingar eru að eyða meira í kaup á erlendum vörum en þeir fá fyrir sínar vörur. Þetta þýðir að við erum að flytja inn sem nemur 344 þúsund Costco fílum meira en við flytjum út.
Hallinn hefur ekki verið meiri í hlutfalli við landsframleiðslu í áratug en á móti vegur að þjónustujöfnuður, sem mælir það sama fyrir þjónustuviðskipti, er jákvæður um meira en hálfa milljón Costco fíla.