Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar fjarlægði í gær sprengjuodd af heimili íbúa í Reykjanesbæ. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni en íbúinn fann sprengjuoddinn þegar hann var að hreinsa til á háaloftinu heima hjá sér.
„Jólahreingerningin byrjaði með sprengju en þó ekki sprengingu hjá einum íbúa Reykjanesbæjar í gær. Þegar var verið að taka til á háalofti fannst þessi gamli sprengjuoddur frá varnarliðinu. Íbúinn hafði samband við lögreglu sem mætti á staðinn. Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar var fenginn á staðinn til þess að skoða og fjarlægja oddinn, sem reyndist vera óvirkur og hættulaus,“ segir í færslu lögreglunnar.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum beinir því til almennings að ef hlutir sem þessir finnist á heimilum fólks skuli ávallt haft samband við lögreglu.
Færsla lögreglunnar
Jólahreingerningin byrjaði með sprengju en þó ekki sprengingu hjá einum íbúa Reykjanesbæjar í gær. Þegar var verið að…
Posted by Lögreglustjórinn á Suðurnesjum on Wednesday, December 5, 2018