Léttvigtarmeistarinn Khabib Nurmagomedov hefur hótað því að hætta að berjast fyrir UFC sambandið fari svo að liðsfélagar hans verði reknir úr UFC eftir hópslagsmálin á laugardaginn. Khabib greinir frá þessu á Instagram.
Sjá einnig: Khabib biðst afsökunar á slagsmálunum: „Fjölmiðlar búnir að breyta þessari íþrótt“
Khabib og Conor McGregor mættust í risabardaga um síðustu helgi þar sem Khabib sigraði örugglega. Sigurinn féll þó í skuggann á vandræðalegum hópslagsmálum sem brutust út eftir bardagann.
Tveir félagar Kahibs tóku þátt í látunum, þeir Zubair Tukhugov og Islam Makhachev en þeir berjast báðir í UFC. Dana White, forseti UFC hefur hótað því að þeir verði reknir úr UFC og við það ætlar Kahib ekki að una.
„Refsið mér. Zubaira Tukhugov hafði ekkert að gera með þetta. Ef þið haldið að ég verði þögull þá hafið þið rangt fyrir ykkur,“ segir Kahib í langri færslu á Instagram sem sjá má hér að neðan.