Kynning:
Mathús Garðabæjar
Ég
er frá Hafnarfirði.
Ég er frá Hafnarfirði sem þýðir að ég
hef ekkert gott að segja um Garðabæinn: Mér er illa við
Garðbæinga. Það er eins og þeir líti
niður á mann, gefi manni puttann með andlitinu – án þess þó að opna munninn – láta heldur fægðu skóna tjá sig um fánýti manns fyrir sig.
Ef
aðeins maður kæmist til Reykjavíkur án þess að keyra í gegnum
Garðabæinn; eitt sinn keyrði ég Suðurstrandaveginn til
Hveragerðis og þaðan til Reykjavíkur til þess eins að þyrma nösunum fyrir peningalyktinni
sem svífur úr Garðabænum.
Krókurinn var vel þess virði.
Í síðustu viku, hins vegar, átti sér stað hvimleitt atvik sem neyðir mig víst til þess að endurskoða þetta allt saman. Ég verð kannski að draga í land.
Sjáðu:
Þannig var mál með vexti að mér áskotnaðist gjafabréf á Mathús Garðabæjar. Ég bauð frænda mínum með, en hann er einnig Hafnfirðingur, og saman gengum við inn, taugaóstyrkir, órólegir, sérdeilis skeptískir um tilvist okkar innan bæjarmarkar Garðabæjar.
Þjónninn vísaði okkur til borðs og saman sátum við eins og tveir múslimar í Hvíta húsinu, og þó svo að andrúmsloftið hafi verið gott og innréttingin glæsileg, þá töluðum við ekkert um það: Við afgreiddum glæsileika staðarins með yfirlætisfullri þögn.
Þar sem við vorum þarna staddir á Food and Fun hátíðinni svokallaðri voru
máltíðir okkar fyrirfram ákveðnar: Verðlaunakokkurinn John Lawson hafði hannað sérstakan matseðill fyrir íslenska gesti og höfðum við frændurnir heyrt góða hluti.
Vinalegur þjónn lagði hvern réttinn á fætur öðrum á borðið og allt saman
smakkaðist þetta vel – ótrúlega vel – og þá sérstaklega lambið, sem kokkurinn virtist hafa eldað með það eitt fyrir marki að drepa endanlega allra löngun mannsins til þess að beygja sig undir siðferðiskenndina og gerast grænmetisæta.
Einnig var vínið sem þjónninn paraði saman við hvern rétt framúrskarandi. Þó svo að þetta hafi verið á afmælisdegi bjórsins, þá söknuðum við bjórsins nánast ekkert, sem segir allt sem segja þarf um ágæti vínsins.
Þegar þjónninn vatt sér upp að borðinu og forvitnaðist um álit okkar að máltíðinni lokinni neyddumst við, samt sem áður, að bregðast við líkt og tvær óhrifnæmar og lífsleiðar húsmæður frá Hampton hverfinu í New York:
„Já, já. Fínt bara.“
Við erum jú Hafnfirðingar.
Ég gekk út, seinna um kvöldið, með samviskubit yfir kuldalegri framkomu minni
við þjóninn en hvað gat ég gert? Ég er mannvera og sem mannvera ber mér að
virða ákveðnar hefðir: vinstri maður hrósar ekki hægri manni; stuðningsmaður
United talar aldrei vel um Chelsea; og Hafnfirðingur hatar Garðabæinn sama
hvort að téð bæjarfélag hafi nýverið eignast glæsilegt veitingahús.
Já, Mathús Garðabæjar er góður staður, með betri stöðum, í raun: fagmannleg þjónusta, fallegt andrúmsloft og, það sem skiptir mestu máli – þá er maturinn stórkostlegur
PS.
Heyrst hefur að einhverjir Hafnfirðingar haldi því nú fram að Mathús Garðabæjar sé ekkert annað en Trójuhestur í formi veitingastaðar. Virðast þeir sannfærðir um að þetta þróist hægt og rólega þannig að Hafnfirðingar komi til með að sækja staðinn í auknum mæli þangað til að eitt kvöldið, eftir ljómandi fína máltíð, þá mun þjónninn skella dyrunum í lás, að utan frá, kveikja í staðnum og hlæja með vel klæddum Garðabæjar-múgnum er hafnfirski mannskapurinn brennur inni.
Við þessu svara ég með eftirfarandi orðum: Ef svo vill til að þetta sé rétt, þá held ég, samt sem áður, að ekki sé hægt að óska sér betri máltíð til þess að gæða sér á í hinsta sinn heldur en þá máltíð sem borin er fram á Mathúsi Garðabæjar.
(Mathús Garðabæjar hefur ákveðið að framlengja þriggja rétta Food and Fun matseðilinn sem John Lawson hannaði fram yfir helgina, aðeins 5.990 ISK).
Orð: Skyndibitakúrekinn