today-is-a-good-day

Hér er hinn fullkomni ostabakki: Frábær fyrir áramótin

Ostabakkar eru alltaf sniðugir í partí og þó það sé engin ein rétt uppskrift þá eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga við undirbúninginn. Nútíminn hafði samband við matreiðslumenn Gestgjafans í tilefni þess að stutt er í mikil veisluhöld vegna áramóta.

Þeir segja að best sé að setja hráefnið á bakkann rétt áður en bera á fram, gott er að nota fallegar litlar skálar eða krukkur undir ólífur, ídýfur, sultur og hnetur.

Hafið úrvalið fjölbreytt, til að mynda nokkrar tegundir af ólíkum ostur með mismunandi áferðum, tvær tegundir af kjötáleggi og blöndu af hnetum og þurrkuðum ávöxtum. Ef notaðir eru ávextir er gott að skera þá niður í munnbita þannig að gestir eigi auðvelt með að fá sér. Hér bjóðum við upp á gómsæta útfærslu af ostabakka að hætti Gestgjafans sem á eftir að slá í gegn í öllum partíum.

Bakaður camembert með pekanhnetum og hunangi  

1 stk. camembert-ostur

100 g pekanhnetur

3 msk. hlynsíróp

1 msk. púðursykur

Setjið pekanhnetur, hlynsíróp og púðursykur á litla pönnu og hafið á miðlungsháum hita. Eldið þar til sykurinn er uppleystur, hrærið blöndunni vel saman við hneturnar. Takið af hitanum, hellið yfir á disk með bökunarpappír undir og látið kólna. Skerið toppinn af ostinum og fjarlægið umbúðir. Setjið ost í eldfast mót og bakið við 190°C í u.þ.b. 10-12 mín. Takið ostinn úr, myljið hneturnar gróflega yfir, berið fram strax með stökku brauði eða kexi.

Tillaga að ostabakka 

Fíkjur, apríkósur eða aðrir þurrkaðir ávextir

Þunnt skornar skinkur og pylsur

Grissini og stökkt kex

Blandaðar hnetur og ólífur

Chutney og sultur

Blandaðir ostar, hér er gott að hugsa um að hafa einn harðan ost líkt og machego eða primadonna. Síðan setja til dæmis stilton og mjúkan geitaost.

Umsjón/ Folda Guðlaugsdóttir Stílisti/ María Erla Kjartansdóttir Myndir/ Rakel Rún Garðarsdóttir

Auglýsing

læk

Instagram