Ofnbakaðir kjúklingabitar með chilli og hvítlauk

Stökkir, klístraðir og ómótstæðilega góðir kjúklingabitar.

Hráefni:

1/2 kíló kjúklingabringur skornar í 2 cm bita.

2 hvítlauksgeirar, rifnir niður

smá bútur af engifer, rifinn niður

1 vorlaukur, skorinn smátt

3 dl kornflakes, vel kramið eða mulið

2 msk hunang

1 dl sojasósa

1 msk sesamolía

1 msk hrísgrjónaedik

2 msk hveiti

2 msk sesamfræ

svartur pipar

ólívuolía

1/2 msk chilli paste eða sambal olek ( fæst í öllum matvöruverslunum)

2 dl butter milk ( eða 2 dl mjólk + 1 msk sítrónusafi blandað saman )

Aðferð:

1. Setjið kjúklingabitana í poka og hellið buttermilk ofan í, lokið pokanum vel og hristið pokann svo kjúklingurinn verði vel marineraður í mjólkinni.

2. Hitið ofninn í 210 gráður og setjið bökunarpappír á ofnplötu.

3. Setjið kornflakes, hveiti og pipar í meðalstóra skál og blandið vel saman.

4. Takið síðan einn bita í einu úr pokanum og færið yfir í kornflakes-blönduna og hjúpið bitann vel. Færið síðan yfir á ofnplötuna. Þegar allir bitarnir eru komnir á plötuna þá eru bitarnir penslaðir létt með ólívuolíu og fara síðan inn í ofninn í um 15-20 mínútur.

5. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er kóreska BBQ sósan útbúin. Í litlum potti er hituð sojasósa, hunang, chilli paste, hrísgrjónaedik, engifer, hvítlaukur, sesamolía og 1/2 dl vatn. Hitið að suðu og látið malla í um 5-10 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað aðeins. Færið sósuna síðan af hitanum.

6. Þegar kjúklingurinn er kominn úr ofninum er sósunni penslað rausnarlega á alla bitana, allan hringinn. Stráið síðan sesamfræjum og söxuðum vorlauk yfir. Berið fram heitt. Njótið!

Auglýsing

læk

Instagram