Sultaður rauðlaukur

Þessi rauðlaukur er dásamlegur t.d. á tacos, burritos og salat. Einnig breytir hann hvaða hamborgara sem er í hina mestu gourmet máltíð. Það tekur ekki nema um 15 mín að útbúa hann og svo er hann bara svo fallegur!

Hráefni:

2 rauðlaukar meðalstórir

2 dl hvítvínsedik

3 msk sykur

1 tsk sjávarsalt

1 tsk sinnepsfræ eða kóríanderfræ (má sleppa)

1 dl vatn

safi úr 1 lime

4 þunnt skornar lime sneiðar

Aðferð:

1. Byrjum á að setja 1 líter af vatni í pott og hitum þar til það fer að sjóða.

2. Rauðlaukurinn er skorinn í þunnar sneiðar og síðan settur ofan í sjóðandi vatnið í 15 sek. Lauknum er síðan hellt yfir í sigti sem er búið að koma fyrir í vaskinum. Geymum rauðlaukinn í sigtinu á meðan við hitum edikið.

3. Potturinn fer siðan aftur á helluna með hvítvínediki, sykri, salti, og sinnepsfræjum. Þetta er hitað að suðu og hitað þar til sykurinn er leystur upp að fullu. Tökum pottinn af hellunni og kreistum ferskan lime safann útí.

4. Skiptum rauðlauknum í 2 sultukrukkur og hellum ediksblöndunni yfir. Það má svo bæta örlitlu vatni í krukkurnar ef vantar uppá, vökvinn á að fljóta rétt yfir rauðlauknum. Síðan er þunnt skornum lime sneiðum stungið ofan í krukkurnar, 2 sneiðum í hvora krukku.

Við sjáum hvernig rauðlaukurinn fer að verða fallega bleikur og taka í sig bragð. Það er í raun hægt að nota hann strax en best er að útbúa hann kvöldið áður. Gott er að láta krukkurnar standa opnar í c.a. 30 mín og leyfa þeim að kólna áður en lokið fer á. Geymist vel í kæli í um viku.

Auglýsing

læk

Instagram