Auglýsing

Víntrend 2023: „Fjölbreytt þrúga sem vínáhugafólk ætti að prófa á þessu ári“

Úr Gestgjafanum*

Umsjón/ Maríanna Björk Ásmundsdóttir
Myndir/ Rakel Rún Garðarsdóttir

Mikil gerjun hefur átt sér stað í vínheiminum undanfarið og það verður spennandi að sjá hvað árið 2023 ber í skauti sér. Við fengum Styrmi Bjarka Smárason vínsérfræðing og veitingastjóri á Uppi Bar til að spá í spilin fyrir okkur og segja okkur frá því sem er framundan. Hann hefur fundið fyrir auknum áhuga á vínum frá Búrgúndarhéraði í Frakklandi og Piedmont­héraði á Ítalíu. Vínáhugamenn ættu að prófa Riesling á ný en þrúgan er afar fjölbreytt að sögn Styrmis.

Hvaða stefnur og straumar voru ríkjandi í vínheiminum árið 2022? 
Uppi Bar hefur tekið eftir auknum áhuga fólks á vínum frá Bourgogne eða Búrgúndarhéraði í Frakklandi, Styrmir segir framboðið vera orðið mjög gott hér á landi. Þá hefur áhugi fólks á lífrænum og vistvænum vínum aukist á síðusta ári, sem Styrmi þykir gaman að sjá.

Hvað er framundan á nýju ári? Eru til dæmis einhverjar ákveðnar þrúgur eða svæði að ná meiri vinsældum en áður? Rauðvín frá Norður-Ítalíu hafa verið vinsæl á Uppi Bar, sérstaklega frá Piedmont-héraði. „Fólk hefur verið að spyrja um Barolo-rauðvín sem er Nebbiolo-þrúga og höldum við að fólk muni veita Barbera d’Alba, Barolo og Barbaresco aukna athygli á næstunni. Annars hafa Pinot Noir-vín frá Frakklandi og vín úr Tempranillo-þrúgu frá Rioja verið að keppast um fyrsta sætið.“

Finnst þér vínmenningin á Íslandi hafa verið að breytast? Ef svo er, hvernig þá? 
„Já, svo sannarlega. Fólk er almennt meðvitaðra um hvað það er að velja og er farið að spyrja um sérstök svæði eða héruð sem þekktust ekki áður.“ Aukin þekking á vínum hefur leitt til aukinnar vínmenningar hér á landi sem Styrmir segir að fagfólkið í vínheiminum sé þakklátt fyrir en framboðið á víni hefur einnig færst í vöxt samhliða því.

Er eitthvað nýtt að gerast í vínheiminum sem þú ert sérstaklega spenntur fyrir á nýju ári? 
„Það er rísandi markaður í Þýskalandi og Austurríki þessa dagana en ég er spenntur að sjá hvernig hann þróast þar sem margir toppframleiðendur koma þaðan.“

Til hvaða áfangastaða ættu vínáhugamenn að ferðast á nýju ári? 
„Ég mæli með því að fólk fari þangað sem uppáhaldsvín viðkomandi er ræktað. Annars eru Austurríki og Ribera del Duero á Spáni mjög heillandi að mínu mati.“ Í nóvember er tilvalið að fara á Beaujolais Nouveaux-vínhátíðina í Frakklandi segir Styrmir, það er nokkurra daga hátíð sem haldin er til að fagna uppskerunni.

Hvaða vínum mælir þú með fyrir þá sem eru nýlega farnir að drekka vín og vilja prófa sig áfram? 
Styrmir mælir með Pinot Gris-víni frá Frakklandi en fyrir léttara hvítvín nefnir hann Pinot Grigio-vín frá Ítalíu og Sauvignon Blanc frá Nýja-Sjálandi. Rauðvín er meira smekksatriði að sögn Styrmis en hann mælir með léttum vínum úr Sangiovese-þrúgunni frá Ítalíu, aðeins þurr en með karakter. Þá eru vín úr Pinot Noir og Gamay-þrúgunni frá Beaujolais alltaf vinsæl vín.

Hvaða vínum mælir þú með fyrir þá sem þekkja til vínheimsins en vilja uppgötva eitthvað nýtt? 
„Riesling alveg hiklaust, þessi þrúga hefur lengi verið þekkt fyrir að vera sæt sem er alls ekki alltaf raunin því hún er mjög fjölbreytt. Þurrt Riesling með sushi eða léttum fiskréttum er frábært en hágæða Riesling-vín frá Þýskalandi, Austurríki eða Alsace-héraði getur lifað vel í yfir 30 ár og þróað með sér ilm af díselolíu, mæli með.“

Hvað er alltaf klassískt í vínheiminum? 
Rioja-rauðvín, þá helst úr Tempranillo-þrúgunni hefur náð gríðarlegri fótfestu hér á landi en í hvítvíni hefur Chablis frá Frakklandi verið vinsælt enda mjög klassískt að sögn Styrmis.

 

 

*Endurbirt með leyfi

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing