Dóra Pírati bregst við ásökun Neyðarlínunnar – „Ég er ekki sátt við að sitja undir slíku“

Í gær þá sendi Neyðarlínan frá sér tilkynningu þar sem hún sagði að Dóra BJört Guðjónsdóttir Pírati hefði sett fram grófar en tilhæfulausar ásakanir á hendur starfsfólki Neyðarlínunnar.

Hún Dóra Björt svaraði fyrir sig í opnu Facebook færsluna hér fyrir neðan – og það er óhætt að segja að hún sé ekki sátt við ásökunina.


Vegna viðbragða Neyðarlínunnar

Það hryggir mig að Neyðarlínan kjósi að bregðast við af hörku gegn eðlilegri athugun á störfum fyrirtækisins í kjölfar kvartana borgarbúa sem telja sig ekki hafa notið virðingar og sanngirni í samskiptum við Neyðarlínuna. Yfirlýsingin sem send var út í dag er ekki til þess gerð að ýta undir opna umræðu og faglega skoðun á því atviki sem til umræðu hefur verið að undanförnu.

Það er rangt að ég hafi sagt atvikið ekki tekið alvarlega vegna fordóma við minnihluta. Ég er ekki sátt við að sitja undir slíku. Það sem ég hef sagt og gert í þessu máli er að hlusta á þau sem eru ósátt við samskipti sín við Neyðarlínuna. Og jafnframt óskað eftir að fulltrúar Neyðarlínunnar skýri sína hlið málsins. Í viðtalinu í morgun sagði ég það sanngjarnt að spyrja hvort viðbrögðin voru eðlileg. Um leið sagði ég að í kjölfar þessa atviks hafi ég heyrt frá fleirum þá tilfinningu að viðhorfið sé ójafnt eftir því um hvern er að ræða. Þetta er ekki ásökun af minni hálfu heldur vitna ég til opinberrar umræðu.

Ef kjörnir fulltrúar mega ekki enduróma raddir borgarbúa, hvað eiga þeir þá að gera til að þjóna almenningi?

Krafan um að ég biðjist afsökunar á að kalla eftir svörum og útskýra hvað veldur því að málið kemur til borðs mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs er ekki fagleg og ekki merki um vilja til að fara yfir hvort og þá hvernig eitthvað fór úrskeiðis. Enn síður er það gagnlegt að gera mér upp skoðanir og ásakanir sem fara fyrir brjóstið á yfirmönnum Neyðarlínunnar og er haldið fram opinberlega af öðrum og í kjölfarið krefjast afsökunarbeiðni fyrir þann tilbúning. Það er aðeins til að drepa málinu á dreif og forðast að ræða aðalatriði, sem er að hugsanlega er hér brotalöm.

Mitt markmið hefur verið og er enn að tryggja trausta og góða þjónustu þar sem borgin kemur að. Neyðarlínan er hluti af þeirri þjónustu. Reykjavík á tæp 20% í Neyðarlínunni.

Ég hvet Neyðarlínuna til að nota þetta tækifæri til að fara yfir málið af yfirvegun í stað baráttu gegn ímynduðum óvinum. Neyðarlínan hefur ekki verið sett á sakabekk af mér né borginni. Aðeins hefur verið óskað eftir svörum og skýrum merkjum um að atvikið sé tekið alvarlega og staðfestingu á að ekki sé um kerfisbundið vandamál að ræða heldur einstaka atvik.

Auglýsing

læk

Instagram