Það getur verið erfitt að finna íbúð til leigu hérna á Íslandi þar sem ekki allir ráða við verðið sem leigumarkaðurinn hefur uppá að bjóða. Þess vegna er Ísland auðvelt fórnalamb þegar kemur að leiguíbúðasvindli. Fólk auglýsir íbúðir til leigu á ótrúlegu verði og biður fólk síðan um að senda sér pening fyrir fram.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér viðvörun varðandi þetta. Hér getur þú séð hvað hún skrifaði.
„Nokkuð hefur borið á því að óprútnir erlendir aðilar hafi verið að svíkja fólk með því að bjóða íbúðir sem eru ekki til á netinu. Þeir fá fólk til að greiða leigu fyrirfram og senda sér erlendis. Þeir bjóða upp á allskyns skýringar og veigra sér ekki við að ljá máli stuðnings með lygum. Við vitum að þeir hafa sett upp auglýsingar á vefum sem við notum mikið á Íslandi eins og mbl.is og bland.is og höfum verið í mjög góðu samstarfi við að láta loka á slíkar auglýsingar þegar við vitum af þeim.
Aðferðarfræði svikahrappanna er nánast eins í öllum tilvikum og staðlaður texti notaður. Íslendingar hafa lent í þessu en svo virðist sem erlendir íbúar séu í sérstökum áhættuhóp. Af þeirri ástæðu þá fylgir texti á ensku. Það er vel þekkt að leigumarkaðurinn er erfiður í dag en ekki tapa peningum til svindlara sem nýta sér ástandið.
Kannið hvort að íbúðin sé til og farið jafnvel og skoðið aðstæður. Ef viðkomandi lofar öllu fögru og segir hluti eins og þetta eigi allt að fara í gegn um Airbnb en það fer samt ekki í gegn um þjónustusíður Airbnb þá er verið að plata ykkur. Ef ykkur grunar að auglýsing sé svindl, sendið okkur skilaboð á abendingar@lrh.is“ – Lögreglan
Farið varlega gott fólk.