Svavar Knútur blammerar ákvörðun menntamálaráðherra – ,,Í raun er þetta hreint rúst“

Auglýsing

Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur skrifaði opnu Facebook færsluna hér fyrir neðan, færslu sem hefur vakið athygli og umræðu. 

Í færslunni þá blammerar Svavar Knútur ákvörðun menntamálaráðherra að stytta menntaskólanámið um ár og segir að nú þegar að það sé komin reynsla á þetta sé augljóst hversu vond ákvörðunin var.


Hef mikið velt fyrir mér þeirri ákvörðun menntamálaráðherra fyrir nokkrum árum að stytta menntaskólanámið um ár, úr fjórum niður í þrjú. Því meira sem ég skoða þetta, því fleiri raddir menntaskólanema sem ég heyri og því betur sem niðurstöður þessarar stefnu koma í ljós, því augljósara verður það hversu afskaplega vond ákvörðun þetta var.

Opinbera uppgefna forsendan var sumsagt að koma ungu fólki fyrr gegnum nám til að stytta leið þess inn á vinnumarkaðinn til þess, í öllum grundvallaratriðum að ná inn einu ári af skattinnheimtu á þetta fólk. Allt í lagi með það að vilja fjölga skattborgandi árum, enda þyngist rekstur velferðarkerfis með fjölgun fólks í elstu stigum demógrafíunnar, eftirlaunaþega og fólks sem þarf aukinn stuðning vegna öldrunar. En er þetta rétta leiðin?

Auglýsing

Menntaskólaárin eru gríðarlega mikilvægur mótunartími ungs fólks, sem er að finna sig, læra alls konar hæfileika og kunnáttur, efla sjálfstæði sitt og stunda og læra á þroskað félagslíf á eigin forsendum, en ekki í hinu verndaða umhverfi grunnskólans, með hans skörpu umgjörð. Jafnvel að finna sínar raunverulegu ástríður og námsáhuga. Með því að stytta þetta tímabil og troða náminu niður í þrjú ár fyrir alla nemendur er verið að stórskemma þetta hlutverk menntaskólaáranna. Í raun er þetta hreint rúst. En hvað annað var í boði?

Þegar ég horfi á þessa áskorun sé ég tvær aðrar leiðir sem hefðu virkað mun betur en stytting menntaskólaáranna. Annars vegar styttingu grunnskólanáms um ár, sem hefði komið krökkum fyrr upp á menntaskólastigið og flýtt fyrir fyrrgreindum þroska sjálfstæðis og félagslífs. Grunnskólinn býður líka upp á mun meiri sveigjanleika hvað aðlögun námsefnis varðar. Ef það er hægt að pressa fjögurra ára hörkunámsár niður í þrjú, þá hlýtur að vera einfaldara að koma 10 ára námi niður í 9.

Hin leiðin sem hefði verið fær hefði verið að lengja einfaldlega starfsferil fólks með því að færa eftirlaunaaldurinn aftur um eitt ár annað hvort með því að lengja fyrir alla eða með því að afnema kvöð um eftirlaunaaldur. Heilsa okkar er allt önnur í dag og fólk er mun hraustara og við lifum miklu lengur. Í alvörunni, hvort mynduð þið vilja eyða bestu og hressustu árum ævinnar í að troðast gegnum menntó í panikk, eða lufsast eitt ár í viðbót í vinnu?

Fyrir mér er svarið nokkuð augljóst. Æskuárin eru einfaldlega dýrmætari tími. Þeirra á að njóta og mér finnst einfaldlega þetta unga fólk hafa verið rænt heilu ári og í raun meiru, því þetta veldur líka stórskaða á félagslífinu og mikilvægum þroskaferlum. Innst inni trúi ég því að ákvörðunin hafi verið stórpólítísk þar sem ráðherra hafi séð fyrir sér meiri skaða í kjörklefum að pirra miðaldra liðið en bévítans krakkaskratta sem kjósa hvort eð er alltaf eitthvað vinstri drasl fyrst. Og ekki var í boði að stytta grunnskólann því það hefði sparað peninga á sveitarstjórnastigi en ekki hjá ríkinu.

&Tldr; það var algerlega glötuð ákvörðun að stytta menntaskólann um ár. Skynsamlegra hefði verið að stytta grunnskólann en til vara hefði mátt lengja í starfsárum. Og ef það pirrar einhvern, þá getum við bara lengt í eftirlaunum fólks með langskólamenntun.

Auglýsing

læk

Nýjast á menn

Instagram