Bandaríski þáttastjórnandinn og leikkonan Oprah Winfrey hlaut í nótt Cecil B. DeMille heiðursverðlaunin á Golden Globe-hátíðinni fyrir framlag sitt til kvikmynda. Þar með varð hún fyrsta svarta konan til að hljóta verðlaunin. Þegar hún veitti verðlaununum viðtöku hélt hún magnaða ræðu. Sjáðu ræðuna í spilaranum hér að ofan.
Í ræðunni hrósaði Oprah #MeToo byltingunni og sagði að nú væri framundan nýr tími kvenna og stúlkna gegn hrottafengnum körlum. „Í allt of langan tíma hefur konum hvorki verið trúað né á þær hlustað ef þær hafa vogað sér að segja sannleikann gegn valdi þessara karla. En tími þeirra er kominn!“ sagði Oprah meðal annars.
Að lokum beindi hún orðum sínum til stúlkna sem væru að horfa. Hún sagði að nú væru bjartari tímar framundan þökk sé stórkostlegum konum og körlum sem stigu fram og börðust gegn þöggun.