today-is-a-good-day

Steinhissa Íslendingar sáu eldhnött sundrast yfir landinu, Vígahnötturinn var skærari en Venus

Vígahnöttur sást falla í átt til jarðar og sundrast yfir landinu í kvöld. Steinhissa Íslendingar klóruðu sér í hausnum og spurðu á samfélagsmiðlum hvað í ósköpunum þeir sáu en Sævar Helgi Bragason var fljótur að bregðast við og birti útskýringu ásamt myndbandi á Facebook-síðu Stjörnufræðivefsins. Sjáðu myndbandið hér fyrir neðan.

Sævar Helgi segir í samtali við Nútímann að vígahnötturinn hafi verið mjög skær. „Sennilegast fremur lítill loftsteinn úr bergi þar sem hann sést sundrast á vídeóum, sást í norðausturátt frá höfuðborgarsvæðinu en ég hef líka fengið upplýsingar úr Eyjafirði,“ segir hann.

Vígahnötturinn sást víða á landinu en í athugasemdakerfinu á Facebook-síðu Stjörnuvefsins segist fólk í Reykjavík, Hveragerði, Mosfellsbæ og Hafnarfirði hafa séð hann.

Vígahnötturinn var að sögn Sævars skærari en Venus og hann telur líklegast að hann hafi brunnið upp. Spurður hvort það sé alengt að slík fyrirbæri sjáist á Íslandi segir hann að svo sé ekki. „En þetta gerist annað slagið. Svona bjart stjörnuhrap sést héðan á kannski tveggja til þriggja ára fresti, svona miðað við hvenær þau komast í fréttir. En þetta er auðvitað miklu algengara en það, svona björt stjörnuhrap sjást yfirleitt ekki út af veðri hérna,“ segir Sævar og bendir á gagnlegar upplýsingar um loftsteina.

Horfðu á myndbandið hér fyrir neðan

Auglýsing

læk

Instagram