today-is-a-good-day

Örskýring: Ævintýri Bjarna Ben og Sjóðs 9 í hruninu útskýrð á mannamáli

Um hvað snýst málið?

Bjarni Benediktsson seldi fyrir rúmlega 50 milljónir króna í Sjóði 9 hjá Glitni dagana 2. til 6. október árið 2008. Þá virðist hann hafa miðlað upplýsingum um vinnu Fjármálaeftirlitsins til framkvæmdastjóra hjá Glitni. Bjarni var þingmaður á þessum tíma en er í dag starfandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Stundin fjallar um málið í samstarfi við Reykjavík Media og breska dagblaðið The Guardian. Umfjöllunin er byggð á gögnum innan úr Glitni.

Hvað er búið að gerast?

Sjóður 9 var fjárfestingarsjóður í Glitni. Samkvæmt útboðslýsingu Sjóðs 9 var markmið sjóðsins að „skila jafnri og stöðugri hækkun eigna með fjárfestingu í víxlum, innlánum eða öðrum skammtímaverðbréfum“.

  • 29. september
    Bjarni situr neyðarfund um framtíð Glitnis aðfaranótt mánudags áður en bankinn er tekinn yfir. Glitnir var svo tekinn yfir af íslenska ríkinu seinna sama dag.
  • 2. október
    Bjarni byrjar að selja hluti sína í Sjóði 9.
  • 6. október
    Neyðarlögin sett og Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra, lýkur sjónvarpsávarpi sínu til þjóðarinnar á orðunum: „Guð blessi Ísland“.
    Einar Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Glitnis og vinur Bjarna Benediktssonar, sendir tölvupóst á Atla Rafn Björnsson, aðstoðarmann Lárusar Weldings bankastjóra Glitnis: „Bjarni ben segir að … fme séu á skrilljón að vinna í þessu núna … einhver að tala við Jónas?“ Umræddur Jónas er Jónas Fr. Jónssonar, þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsin (FME).
  • 7. október
    Fjármálaeftirlitið tekur yfir rekstur Landsbanka Íslands.
  • 9. október
    Fjármálaeftirlitið tekur yfir Kaupþing banka og bankakerfið var hrunið.

Í viðtali við The Guardian hafnar Bjarni því að hafa búið yfir innherjaupplýsingum um neyðarlögin á þessum tíma. Hann segir að allir skynsamir fjárfestar hefðu íhugað að selja á þeim tíma sem hann seldi.

Í viðtali í Víglínunni á Stöð 2 í desember í fyrra sagðist Bjarni ekki hafa átt neitt sem skipti máli í Sjóði 9. „Ég átti á sínum tíma eitthvað í Sjóði 9 en ég man ekki eftir því að það hafi verið eitthvað sem mig rekur minni til að hafi skipt einhverju máli,“ sagði hann en játaði hvorki né neitaði að hafa selt í sjóðnum dagana fyrir hrun.

Hvað gerist næst?

Helga Vala Helgadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík norður fyrir kosningarnar í október, kallar eftir því að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til að rannsaka viðskipti Bjarna.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram