Örskýring: Borgarlína útskýrð fyrir fólki sem nennir ekki að kynna sér borgarlínu

Um hvað snýst málið?

Borgarlínan virðist ætla að verða eitt af kosningamálunum í sveitarstjórnarkosningum 26. maí næstkomandi. Borgarlínan er samstarfsverkefni allra sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu.

Reiknað er með að höfuðborgarbúum fjölgi um 40 þúsund fram til ársins 2030. Markmiðið með borgarlínunni er að fjölgunin leiði ekki til samsvarandi aukningar í umferð.

Hvað er búið að gerast?

Hugmyndir um borgarlínu voru kynntar í svæðsskipulagi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árið 2015.

Borgarlína myndi samanstanda af sérakreinum sem fá forgang á gatnamótum og tíðni vagna á borgarlínunni yrði fimm til tíu mínútur. Hugmyndin snýst um að tengja sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu saman með skilvirku samgöngukerfi og draga úr notkun einkabílsins.

Framan af var óljóst hvort lestir eða hraðvagnar myndu ferðast um borgarlínuna en nú hefur seinni kosturinn orðið fyrir valinu. Hraðvagnarnir eru með lágt gólf sem er í sömu hæð og biðstöðin en það auðveldar fólki í hjólastólum og með barnavagna að fara um borð. Allar hurðar opnast á sama tíma þegar komið er á biðstöðina og reiknað er með að fólk sé búið að greiða fargjaldið á biðstöðinni.

Reiknað er með að kostnaðurinn verði um 70 milljarðar en kostnaður við fyrstu áfanga gæti numið á bilinu 20 til 25 milljörðum króna.

Svipuð kerfi eru í Swansea í Wales, Albany í New York-ríki í Bandaríkjunum, Stavanger og Þrándheimur í Noregi, Óðinsé í Danmörku og fleiri borgum víða um heim.

Hvað gerist næst?

Þverpólitísk sátt virðist vera um borgarlínuna á meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Enn er þó óljóst hvert framlag ríkisins verður en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er tekið fram að ríkisstjórnin styðji við borgarlínu.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram