Örskýring: Eigandi Sjanghæ á Akureyri stefnir RÚV

Um hvað snýst málið?

Rosita YuFan Zhang, eigandi veitingastaðarins Sjanghæ á Akureyri, hyggst stefna RÚV vegna umfjöllunar um málefni staðarins.

Í lok ágúst greindi RÚV frá því að grunur væri um vinnustaðamansal á staðnum. Í umfjölluninni kom fram að talið væri að starfsfólk fengi greiddar þrjátíu þúsund krónur í laun á mánuði og fengi að borða matarafganga af veitingastaðnum.

Hvað er búið að gerast?

Umfjöllun RÚV var byggð á ábendingu sem barst Einingu-Iðju. Í tilkynningu um málið á vef stéttarfélagsins skömmu eftir að umfjöllunin birtist kom fram að rannsókn málsins leiddi í ljós að ábendingin ætti ekki við rök að styðjast.

Vinnustaðaeftirlit stéttarfélagsins Einingar-Iðju sýndi fram á að starfsmenn Sjanghæ fái greitt samkvæmt kjarasamningum og launatöxtum sem gilda á veitingahúsum. Þá kom fram að laun kokka staðarins reyndust vera um hálf milljón á mánuði.

Í yfirlýsingu frá RÚV kemur fram að fréttastofan hafi tekið ákvörðun um að greina frá því að grunur léki á vinnumansali á staðnum þar sem ítrekaðar staðfestingar höfðu fengist um það frá Einingu-Iðju.

Í yfirlýsingu Einingar-Iðju kemur hins vega fram að það sé ekki Ríkisútvarpinu samboðið að reyna að skjóta ábyrgðinni af fréttaflutningi sínum að einhverju leyti yfir á Einingu-Iðju. „Fréttastofa þess þarf ein að axla ábyrgð af ófaglegum vinnubrögðum sínum,“ segir þar.

Hvað gerist næst?

Eigandi Sjanghæ hefur falið lögmanni sínum að undirbúa stefnu á hendur RÚV, fréttamanni RÚV og öðrum sem kunna að bera ábyrgð.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram