Örskýring: Ha? Af hverju er ríkið að fara að eignast Íslandsbanka?

Um hvað snýst málið?

Kröfuhafar Glitnis leggja til að eignarhlut sínum í Íslandsbanka verði afsalað til ríkisins. Þetta eru breytingar á fyrri tillögu þeirra um stöðugleikaframlag til ríkisins í tengslum við áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta.

Hvað er búið að gerast?

Fjármálakerfið hrundi árið 2008 og síðan þá hafa gjaldeyrishöft verið á Íslandi → Til að losa um höftin þarf að gera upp slitabú gömlu bankanna → Kröfuhafar slitabúanna geta flutt peningana sína úr landi með snöggum hætti ef gjaldeyrishöftin væru afnumin öll í einu → Það gæti haft mikil áhrif á gengi íslensku krónunnar → Ríkið kynnti áætlun um afnám hafta í sumar → Kröfuhafar Glitnis lögðu fram tillögur um svokallað stöðugleikaframlag til ríkisins → Endurskoðaðar tillögur gera ráð fyrir því að ríkið eignist Íslandsbanka ef tillögurnar verða samþykktar.

Hvað er stöðugleikaframlag?

Hundruð milljarða sem slitabúin þurfa að borga svo allt fari ekki til fjandans þegar þau fara með peningana sína úr landi.

Takist slitabúunum ekki að ljúka uppgjöri sínu með nauðasamningum fyrir árslok 2015 þurfa þau að greiða 40% skatt af peningum sem þau flytja úr landi við afnám gjaldeyrishafta.

Hvað gerist næst?

Í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur ekki fram hvort ríkið ætli að selja eða eiga Íslandsbanka.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram