Örskýring: Hvað er prófkjör og af hverju í ósköpunum er fólk að biðja um hin og þessi sæti?

Um hvað snýst málið?

Alþingiskosningarnar eru framundan. Margir flokkar nota prófkjör til að velja frambjóðendur á lista. Ef frambjóðandi endar ofarlega á lista er líklegra að hann komist inn á þing, fái flokkurinn nógu mörg atkvæði.

Hvað er búið að gerast?

Að undanförnu hafa frambjóðendur sagt að þeir óski eftir ákveðnu sæti í prófkjörum flokkanna. Yfirleitt fá aðeins skráðir flokksmenn að kjósa. Kjósendur raða frambjóðendum í sæti á kjörseðlinum.

Sá frambjóðandi sem hlýtur flest atkvæði í 1. sæti nær því sæti. Þá er sá frambjóðandi fjarlægður úr talningunni og sá frambjóðandi sem eftir stendur og hefur hlotið flest atkvæði í 1. og 2. sætið samanlagt nær 2. sætinu. Sá sem fær flest atkvæði fyrir utan þá tvo frambjóðendur í 1. til 3. sætið fær síðan 3. sætið og svo framvegis.

Sem dæmi má nefna er Sjálfstæðisflokkurinn með sameiginlegt prófkjör fyrir Reykjavíkurkjördæmin tvö. Þá velur sá sem hafnar efst á listanum í hvoru kjördæminu hann vill bjóða fram í og fer þá sá sem er í öðru sæti í hitt kjördæmið. Svo raðast frambjóðendur í kjördæmin koll af kolli.

Hvað gerist næst?

Niðurstöður prófkjörs eru ekki alltaf bindandi. Stundum er úrslitunum breytt, til dæmis til að stuðla að jafnari kynjahlutföllum.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram