Örskýring: Hvað gekk á þegar Ragnhildur Ágústsdóttir kærði eiganda Tals fyrir frelsissviptingu?

Um hvað snýst málið?

Ragnhildur Ágústsdóttir birti pistil á Kjarnanum í dag þar sem hún sagði frá því hvernig hún var neydd til að skrifa undir uppsagnarbréf hjá fjarskiptafyrirtækinu Tal árið 2009. Ragnhildur var forstjóri Tals á þessum tíma en hún nafngreinir hvorki fyrirtækið né mennina sem neyddu hana til að skrifa undir í pistlinum.

Hvað er búið að gerast?

Ragnhildur tók við starfi forstjóra eftir átök í stjórn Tals en hún lýsir í pistlinum hvernig átökin höfðu slæm áhrif á fyrirtækið. Hún segist hafa fengið tvö nafnlaus hótunarbréf í pósti heim til sín þar sem hún var vöruð við því að beita sér eða taka afgerandi ákvarðanir í starfi sínu sem forstjóri.

Málið var til umfjöllunar árið 2009 en Ragnhildur kærði Jóhann Óla Guðmundsson, einn eigenda Tals, og lögmann hans, Stefán Geir Þórisson fyrir frelsissviptingu.

Jóhann Óli mætti í höfuðstöðvar fyrirtækisins ásamt lögmanni sínum og óskaði eftir fundi með Ragnhildi. Þegar í fundarherbergið var komið lokuðu þeir hurðinni og lögðu fyrir hana uppsagnarbréf. Ragnhildur segir þá hafa sagt að hún færi ekki út fyrr en hún væri búin að skrifa undir. Hún reyndi að hringja í lögmann sinn en búið var að loka símanúmerinu hennar.

„Ég reyndi aftur að standa upp en þegar mér aftur ýtt af festu niður í sætið reyndi ég að höfða til skynsemi þeirra,“ segir Ragnhildur í pistlinum. Hún var gengin fjóra mánuði á leið á þessum tíma og var að eigin sögn skíthrædd um sjálfa sig og ófætt barnið.

Eftir að eina og hálfa klukkustund í herberginu skrifaði hún undir plaggið. Jóhann Óli sagði í samtali við Morgunblaðið á sínum tíma að fundurinn hafi í alla staði farið mjög skikkanlega fram.

Ragnhildur komst síðar að því að Hermann Jónasson, fyrrverandi forstjóri Tals, hafi boðað til starfsmannafundar á meðan hún var lokuð inni í fundarherberginu og tilkynnt starfsfólki að hann væri sestur í stól forstjóra á ný. Hann er forstjóri íbúðalánasjóðs í dag en hætti í starfi sínum hjá Arion banka eftir að hann var sakaður um kynferðislega áreitni.

Hvað gerist næst?

Ragnhildur vill meina að um kynbundið ofbeldið hafi verið að ræða en segir í pistli sínum að tími þagnarinnar sé liðinn. „Við verðum, sem þjóðfélag, að rísa upp gegn kúltúr sem lætur einstaklinga halda að þeir geti traðkað yfir annað fólk á skítugum skónum,“ segir hún.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram