Örskýring: Hvaða skýrslu eru allir að tala um og af hverju er Bjarni Ben sakaður um að segja ósatt?

Auglýsing

Um hvað snýst málið?

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er sakaður um að bíða með að birta skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum þangað til eftir kosningar.

Í skýrslunni kom meðal annars fram að mögulegt tap íslenska ríkisins vegna vantalinna eigna Íslendinga á aflandssvæðum geti numið allt frá 2,8 milljörðum króna til 6,5 milljarða á ári miðað við gildandi tekjuskattslög.

Talið er að uppsafnað umfang eigna og umsvifa Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 sé á bilinu 350 til 810 milljarða króna.

Auglýsing

Hvað er búið að gerast?

Á miðvikudaginn í síðustu viku greindi Kjarninn frá því að skýrslan hefði verið tilbúin í byrjun október. Hún var svo birt á föstudaginn.

Í fréttum RÚV á laugardag sagði Bjarni að skýrslan hefði ekki borist ráðuneyti hans fyrir þingslit, sem voru 13. október en Alþingiskosningar fóru svo fram 29. október.

Hann sagði að því hefði verið ákveðið að bíða framyfir kosningar með birtingu hennar, svo ný ríkisstjórn og ný efnahags- og viðskiptanefnd gæti tekið hana til umfjöllunar.

Í gær kom svo í ljós að þetta var ekki rétt hjá Bjarna. Skýrslunni var skilað til ráðuneytisins 13. september og Bjarni fékk sérstaka kynningu á henni 5. október. Í fréttum RÚV í gær viðurkenndi hann að tímalína sín hefði ekki verið nákvæm og baðst afsökunar á því.

Þá greindi Stundin frá því í gær að á forsíðu skýrslunnar hafi textinn „september 2016“ verið hvíttaður og gerður ólæsilegur. Í frétt RÚV sagðist Bjarni ekki hafa látið gera það. „Ég hef ekki hugmynd um það hvers vegna eitthvað slíkt kann að hafa átt sér stað,“ sagði hann.

Hvað gerist næst?

Skýrslan verður tekin til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram